Meiri hrollur frá Peele?

Eins og flestir kvikmyndaunnendur þekkja þá geta framhaldsmyndir verið mjög misjafnar að gæðum, og oft er betur heima setið en af stað farið í þeim efnum.  Nú er mögulega von á einni, en svo virðist sem Jordan Peele sé alls ekki fráhverfur hugmyndinni um að gera framhald á kvikmyndinni Get Out, kalhæðni-hrollvekjunni, sem sló í gegn í miðasölunni í fyrra, og fékk þrjár Óskarstilnefningar, auk þess að vera víða valin besta mynd síðasta árs, þar á meðal hjá Empire tímaritinu.

Peele var nýlega inntur eftir möguleikanum á því að hann réðist í gerð framhaldsmyndar, og sagði þá við The Hollywood Reporter: „Ég mun klárlega skoða það alvarlega. Ég elska þennan myndheim, og mér finnst að það sé enn sitthvað ósagt. Ég veit ekki enn hvað það er nákvæmlega, en það eru nokkrir lausir endar sem virðast vilja fá að hnýtast saman.“