Sam Mendes leikstjóri James Bond myndanna Skyfall og Spectre, hefur staðfest að hann muni ekki leikstýra James Bond mynd á ný.
Mendes sló í gegn með Skyfall árið 2012 og snýr nú aftur með Spectre, og með Daniel Craig í aðalhlutverkinu, hlutverki njósnara hennar hátignar, James Bond.
Mendes hyggst snúa sér aftur að leikstjórn í leikhúsi.
Spectre verður heimsfrumsýnd í Bretlandi 26. október nk.
„Ég hafnaði því að leikstýra síðustu mynd [ Spectre ] en endaði með að leikstýra henni þrátt fyrir það [ …. ] “ sagði hann í samtali við Jonathan Agnew á útvarpsstöðinni BBC Radio 5.
„Ég tel að nú sé komið nóg. Ég held að það að eyða fimm árum í tvær myndir, þannig líður mér, þó við séum rétt nýbúin að taka hana upp, að þetta sé ein samfelld lífsreynsla.“
Mendes lýsti starfinu meira sem „lífsstílsákvörðun fremur en starfi“, enda setti hann öll önnur verkefni „á ís“ á meðan.
Mendes, sem er 49 ára gamall og fyrrum eiginmaður leikkonunnar bresku Kate Winslet, sagðist í samtalinu vera ánægðastur þegar hann væri að „æfa leikrit eða klippa bíómynd“ en þrái að snúa sér aftur að leikhúsinu, en þar líði honum best.
„Það er svona einfaldara að ráða við það umhverfi eftir alla óreiðuna á tökustað kvikmyndar,“ sagði hann. „En áður en langt um líður veit ég að mig langar að leikstýra kvikmynd á nýjan leik, og ég er mjög lánsamur að geta flakkað á milli þessara tveggja forma.“
Spectre var tekin á fleiri stöðum en Skyfall, þar á meðal í Mexíkó borg, Tangiers, Norður Sahara, Róm, Ölpunum og í London.