Metsumar í Bandaríkjunum

Kvikmyndaritið Variety greinir frá því að bíóaðsókn í Bandaríkjunum í sumar hafi verið meiri en búist var við, og námu tekjurnar af miðasölu 4,75 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 577 milljörðum íslenskra króna. Þetta er nýtt met, og 8% meiri tekjur en metárið 2011.

THE BUTLER

567 milljón manns mættu í bíó, sem er það mesta í fjögur ár, en er ekki met, samkvæmt the National Assosiation of Theater Owners, eða Landssamtökum bíóhúsaeigenda.

Yfir heilt ár þá náði aðsókn 7,67 milljörðum dala, og 940 milljón bíógestum, sem er 2% minna en í fyrra.

Áætlað var fyrir nokkrum vikum að heildar sumaraðsóknin myndi slá met, sem gekk eftir og rúmlega það, eftir að myndir sem komu út í ágúst, eins og Lee Daniels’ The Butler og We’re the Millers, urðu mjög vinsælar.

Eins og Variety greinir frá þá var, þrátt fyrir metið, nokkuð um flopp, sem mörg voru stærri og fleiri, en á nýliðnum árum, sem kenndi framleiðslufyrirtækjunum ákveðna lexíu.

Myndir sem náðu ekki að standa undir væntingum fyrr í sumar, eins og Pacific Rim og Elysium, hafa verið að hala inn tekjur á lengri tíma, en Pacific Rim er komin með 100 milljónir dala í tekjur í Bandaríkjunum og 400 milljónir á alheimsvísu, en myndin kostaði 180 milljónir dala í framleiðslu. Elysium, sem kostaði 115 milljónir dala, er komin í 178 milljónir dala á alheimsvísu, og er enn að þéna peninga.

Nú bíða menn spenntir eftir að sjá hvað haustið ber í skauti sér hvað aðsókn varðar, en væntanlegar eru stórmyndir sem margir bíða eftir, eins og The Hunger Games: Catching Fire, Thor: The Dark World og The Hobbit: The Desolation of Smaug.