Mun Streep verða Lilja prinsessa í Star Wars?

Þegar framleiðslufyrirtækin Disney og Lucasfilm staðfestu að tölvutæknin, eða svokölluð CGI tækni,  yrði ekki notuð til að vekja Lilju prinsessu, eða Leia, til lífsins á ný í Star Wars 9, þá var heldur ekkert minnst á hvort nota ætti lifandi leikkonu í hlutverkið.

Hugmyndin hljómar væntanlega eins og helgispjöll í eyrum heittrúaðra Stjörnustríðsaðdáenda, nema þá að um væri að ræða leikkonu sem léki Lilju á yngri árum, en margir hafa í þeim efnum horft til Stranger Things leikkonunnar Millie Bobby Brown.

Nú eru raddir að verða háværar um að sjálf Óskarsverðlaunaleikkonan Meryl Streep muni fylla skarð vinkonu sinnar Carrie Fisher.

Meryl Streep lék eitt sinn eins og frægt er orðið Carrie Fisher í kvikmyndinni Postcards from The Edge, og hefur góða innsýn í hugarheim Fisher þegar kemur að vísindaskáldskap. Óvíst er þó hvort að Lucasfilm myndi vilja koma slíku róti á aðdáendur Star Wars myndanna.

Stórt skarð var höggvið í Star Wars heiminn þegar Fisher lést fyrir meira en ári síðan. Flestir aðdáendur eru væntanlega sáttir við að persónan sé horfin að eilífu, en vandamálið er að alltaf var gert ráð fyrir að Lilja myndi leika stórt hlutverk í sögunni í Star Wars 9, rétt eins og Hans Óli var í The Force Awakens og Logi var í The Last Jedi. Lilja var aðal persónan í handriti Star Wars 9 sem var lagt til hliðar af Colin Treverrow, sem var látinn fara úr leikstjórastólnum og J.J. Abrams fenginn í staðinn. Abrams hefur nú þegar lokið sínum handritaskrifum og tökur myndarinnar hefjast í sumar.  Engar opinberar fréttir hafa borist af þátttöku Lilju í myndinni.