Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

Summer of Sam 1999

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 17. mars 2000

The summer of '77 was a killer........

142 MÍNEnska

Útfærsla leikstjórans Spike Lee á "Son of Sam" morðunum í New York borg sumarið 1977 þar sem fórnarlömbin voru í ítalsk-bandaríska hverfinu í suðurhluta Bronx, sem voru óttaslegin og treystu ekki hverju öðru.

Aðalleikarar


Summer of Sam er, að mínu mati, besta mynd sem Spike Lee hefur sent frá sér eftir Malcolm X. Sagan er góð, leikarar standa sig frábærlega. Þar er helst Mira Sorvino alveg frábær sem kærasta Leguizamo. Svo eru þeir félagar John Leguizamo og Adrien Brody góðir líka. Myndin byggir á sönnum atburðum og segir söguna af hitabylgjunni sem reið yfir 1977 og morðingjanum David Berkowitz, a.k.a The 44 kaliber killer. Ef þið eruð ekki búin að sjá þessa, þá eruð þið að missa af miklu. Stórkostleg mynd frá meistara Spike Lee sem fær há meðmæli frá mér. 3 og hálf stjarna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Mjög svo áhrifamikil mynd. Ég hef aldrei fílað Spike Lee mjög mikið, þessi mynd og He Got Game eru lang bestu myndir hans. Þessi mynd gerist sumarið ´77 í New York, á þessu sumri gekk mikið á, Son of Sam gekk laus og drap marga saklausa borgara, rafmagnslaust var í New York og sumstaðar í Kanada, Yankees liðið vann sinn 25. sigur í hafnaboltanum og fleira og fleira. Spike Lee lék smá hlutverk í henni og var hann ágætur. Mjög góð mynd, ef þið fílið ekki Spike Lee, þá farið þið bara samt á þessa!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Kvikmyndin "Summer of Sam" er nýjasta afurð meistaraleikstjórans Spikes Lee (Mo´ Better Blues, Jungle Fever, School Daze, Malcolm X, Clockers, Do the Right Thing, He Got Game og margar fleiri) og eins og oftast þegar hann á í hlut hefur myndin hlotið frábæra dóma gagnrýnenda. Þeir sem séð hafa myndir Spike Lee og hrífast af handbragði hans ættu því tvímælalaust að sjá þessa. Sumarið 1977 er öllum New York-búum eftirminnilegt fyrir margra hluta sakir. Tvennt af því sem stendur þó örugglega upp úr í minningunni er hitabylgjan sem gekk yfir borgina þetta sumar, þegar hitinn hélst um og yfir 40 gráður í meira en sex vikur samfleytt, og skelfingin sem fjöldamorðinginn David Berkowitz vakti í borginni á meðan hann gekk laus undir heitinu Son of Sam. Segja má að hitinn og morðin hafi í sameiningu gert það að verkum að margir borgarbúar urðu bæði pirraðir og hræddir við umhverfi sitt og í myndinni sýnir Lee okkur hvernig þetta hafði áhrif á vinahóp og nágranna í Bronx-hverfinu. Við kynnumst Vinnie og eiginkonu hans sem lifa frekar fábreyttu og gleðisnauðu lífi, enda er Vinnie ekki við eina fjölina felldur og heldur fram hjá eiginkonu sinni þegar hann getur. Morðmálið hefur vakið upp nokkra spennu í hverfinu og menn ræða um það sín á milli að morðinginn geti í raun verið hver sem er, jafnvel einn af þeim sem þarna búa. Smám saman taka þessar umræður á sig talsvert alvarlegri blæ en efni standa til og ekki líður á löngu uns allir eru farnir að gruna alla um græsku. Og í gang fer ógnvænleg atburðarás sem enginn fær neitt við ráðið. Kvikmyndin skartar í aðalhlutverkum þeim John Leguizamo, Adrien Brody, óskarsverðlaunaleikkonunni Miru Sorvino (The Mighty Aphrodite), Jennifer Esposito, Anthony LaPaglia, Bebe Neuwirth, Ben Gazzara og John Savage svo einhverjir séu nefndir af mörgum góðum. Ég mæli eindregið með þessari kvikmynd Spike Lee og gef henni þrjár stjörnur
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Ég er ekki mikill aðdáandi Spike Lee, en þessi mynd er vel gerð og ólík hans fyrri myndum á flestan hátt. Að þessu sinni tekur hann fyrir sumarið 1977 í New York-borg. Það sumar er frægt fyrir tvennt; gífurlegar hitabylgjur, og morðin sem Sonur Sáms framdi á þeim tíma. Þessir atburðir eru ávallt í bakgrunni sögunnar sem áhorfendur fá að fylgjast með, og endrum og sinnum er jafnvel skyggnst inn til morðingjans sjálfs. En aðalkarakterinn er Vinny, slepjulegur og frekar lítið aðdáunarverður hárgreiðslumaður (John Leguizamo), sem heldur krónískt fram hjá eiginkonunni (Mira Sorvino) og verður að gera upp vináttu sína við æskuvininn (Adrien Brody) og kærustuna hans (Jennifer Esposito úr Spin City). Við fylgjumst með því sem drífur á daga þeirra í Bronx, en þegar Vinny uppgötvar að hann slapp naumlega við að verða næsta fórnarlamb Sonar Sáms tekur sagan nýja stefnu sem væri ósanngjarnt að fara út í hér. Lee á yfirleitt auðvelt að ná góðum leik út úr fólki og það á við hér líka. Leguizamo er stórgóður karakterleikari, eins og Broadway-sýningin hans "Freak" sannaði. Hann fær mann til að hata Vinny, og það er líka ætlunin. Adrien Brody (The Thin Red Line) slær á rétta strengi sem pönkarinn vinur hans. Einna helst kemur Mira Sorvino illa út í frekar vanþakklátu hlutverki. En í heldina séð sterk mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Þegar Spike Lee gerir kvikmynd þá má búast við, eins og frá Oliver Stone, mynd sem er fersk, öðruvísi og mögnuð. Summer of Sam er þetta allt og meira til. Þegar u.þ.b. hálftími var búinn af þessari mynd var ég mjög reiður fyrir að hafa ekki drullast með mig á þessa snilld í bíó þar sem allir kvikmyndaáhugamenn áttu að sjá hana, en á video stendur hún alveg fyrir sínu. Myndin gerist sumarið 1977 þegar fjöldamorðinginn Dave "Son of Sam" Berkowitz gekk berserksgang og myrti ungt fólk í hverfum New York. Sagan um Berkowitz gegnir aðeins því hlutverki að skapa ofsóknaræði hjá aðalpersónum myndarinnar sem eru feikilega vel leiknar af John Leguizamo, Miru Sorvino, Adrien Brody og Jennifer Esposito. Það var nú Esposito sem kom mest á óvart en þegar maður þekkir hana aðeins úr myndum eins og I Still Know What You Did... og þáttunum Spin City býst maður ekki við miklum leiksigrum í öðrum myndum. Esposito blæs á allt þetta með afbragðsgóðum leik og er á góðri leið með að verða upprennandi stjarna. Tónlistin, andrúmsoftið, krafturinn og skemmtilega upphugsað handrit gera Summer of Sam að algjörri skylduáhorfsmynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn