Einstaklega góð íslensk kvikmynd sem sameinar alla höfuðkosti íslenskrar kvikmyndagerðar við dögun nýrrar aldar og er tvímælalaust staðfesting þess að íslensk kvikmyndagerð er orðin einstaklega vönduð og er komin á æðra plan en var t.d. á síðasta áratug. Hún er enn ein íslenska stórmyndin sem kemur á undanförnum tveim árum og er ein af þeim betri (meðal annarra ísl. úrvalsmeistaraverka undanfarið má nefna; Engla Alheimsins, Ungfrúna góðu og húsið, 101 Reykjavík og Dansinn). Kvikmyndin Fíaskó (hún er sko EKKI fíaskó heldur bravúr meistaraverk) gerist í Reykjavík og í henni tvinnast saman 3 sögur af Bardal-fjölskyldunni, laumuspili meðlima hennar og léttgeggjuðum uppákomum á einum sólarhring. Karl (Róbert Arnfinnsson) er ellilífeyrisþegi sem gengur með grasið í skónum á eftir gamalli kvikmyndastjörnu (Kristbjörg Kjeld) sem þjáist af minnisleysi og miklum geðsveiflum. Karl er staðráðinn í að ná ástum hennar, jafnvel þótt hann þurfi að ræna banka! Júlía (Silja Hauksdóttir) er barnabarn Karls, ófrísk og með tvo menn í takinu: Gulla (Ólafur Darri Ólafsson), sem er ljúfur bankastjóri, og Hilmar (Björn Jörundur Friðbjörnsson), villtan sjómann sem er til í næstum því allt. En hvor er faðirinn? Steingerður (Margrét Ákadóttir), mamma Júlíu, veit ekkert af þessu enda upptekin af sínum eigin hugðarefnum. Hún dýrkar trúboðann Salómon (Eggert Þorleifsson), hrífandi mann sem drekkur allt of mikið og lendir í því að uppgötva steindauða fatafellu í nuddpottinum sínum eftir sérlega fjöruga nótt. Þau Steingerður koma líkinu fyrir í bílskottinu með það í huga að kasta því í sjóinn. Allt gengur vel þar til bílnum er stolið, þar með hefjast vandræðin fyrst fyrir alvöru... Þetta er í einu orði sannkallað meistaraverk sem enginn kvikmyndaunnandi ætti að missa af enda skartar hún vandaðri kvikmyndatöku, svipmikilli tónlist, góðri leikstjórn Ragnars Bragasonar (sem sannar án nokkurs vafa að hann á framtíðina svo sannarlega fyrir sér í þessum geira) og einstaklega vönduðum leik allra aðalleikaranna. Að engum þeirra ólöstuðum tel ég án nokkurs vafa að senuþjófarnir séu leiksnillingarnir (gömlu góðu) Róbert Arnfinnsson og Kristbjörg Kjeld (en þau eru bæði veraldarvanir sviðsleikarar úr Þjóðleikhúsinu þar sem þau hafa unnið margan ógleymanlegan leiksigurinn) og eru þau bæði heillandi og hreint stórfengleg í hlutverkum turtildúfanna Karls Bardal og hinnar Alzheimer-sjúku (og föllnu) kvikmyndastjörnu sem vill vitanlega ekkert eiga saman að sælda með íslenskum (og í þokkabót peningalausum) ellilífeyrisþega (eða hvað?)! Það er hrein unun að fylgjast með þeim í hlutverkunum og eru þau hiklaust gullmolarnir í myndinni. Einnig eru Eggert, Silja, Margrét, Ólafur Darri og Björn Jörundur stórfengleg í hlutverkum sínum. Semsagt þessi kvikmynd er án nokkurs vafa stórfengleg í alla staði og það er því nægar ástæður til að hvetja alla kvikmyndaunnendur til að láta hana ekki fram hjá sér fara, enda eru flestir á því að hún sé með betri íslensku myndum sem gerðar hafa verið, sprenghlægileg og grátleg í senn, og tek ég heilshugar undir það. Ég gef Fíaskó fjórar stjörnur og mæli eindregið með henni. Hún er einstakt meistaraverk á íslenskan mælikvarða og er hreint ógleymanlega góð í alla stapði
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei