Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Það leikur enginn vafi á því að The Negotiator er á meðal bestu spennumynda ársins 1998. Í henni fara tveir af albestu leikurum heims, óskarsverðlaunaleikarinn Kevin Spacey og Samuel L. Jackson á algjörum kostum, handritið þykir á meðal þess besta sem Hollywood-mynd af þessari stærðargráðu hefur boðið upp á í langan tíma, og leikstjórn F. Garys Gray er bæði örugg og hugmyndarík. Með The Negotiator hefur hann örugglega skotið sér upp í hóp virtustu leikstjóra Bandaríkjanna. Til að kóróna meðmælin er óhætt að segja að "plottið" í myndinni sé bæði snjallt og óvænt. Sem sagt: Pottþétt mynd sem allir ættu að sjá. Danny Roman "Jackson" er lögreglumaður í Chicago-lögreglunni og þykir einn sá snjallasti þegar samningaviðræður við glæpamenn og mannræningja eru annars vegar. Það eru hins vegar ekki allir jafn ánægðir með frammistöðu Romans og einhver, eða einhverjir, hafa ákveðið að leiða hann í gildru. Í ljós hefur komið að einhver hefur misnotað aðstöðu sína og dregið sér fé úr lífeyrissjóði lögreglunnar. Áður en Roman veit hvaðan á sig stendur veðrið er hann sakaður um að vera valdur að peningahvarfinu. Hann er neyddur til að segja upp störfum og fyrir honum liggur ekkert nema löng fangelsisvist. En Roman er ekki á því að láta knésetja sig baráttulaust og því grípur hann til þess ráðs að ræna manninum (J.T. Walsh) sem borið hefur upp ásakanirnar og nokkrum öðrum saklausum vegfarendum. Hann krefst þess síðan að fá að semja um lausn gíslanna við annan snjallan samningamann, Chris Sabian "Spacey". Þar með hefst hreint æsispennandi umsátursástand sem enginn veit hvernig endar! Þrælgóð og einkar vönduð þriggja og hálfrar stjörnu mynd sem er í senn góð afþreying og vel gerð spennumynd sem heldur manni við efnið. Ekki spillir fyrir stórkostlegur leikur aðalleikaranna Spacey og Jackson og ekki síst J.T. Walsh sem er stórfínn í sinni síðustu mynd.
Þegar einn færasti sáttasemjari lögreglunnar í gíslatökumálum er sakaður um morð, grípur hann til þess örþrifaráðs að taka sjálfur gísla til að fá ráðrúm til að sanna sakleysi sitt. Afar ósannfærandi og fyrir vikið spennulaus sakamálamynd sem leikurunum tekst naumlega að bjarga fyrir horn með góðum leik.
Þessi ræma, Negotiator, virðist vera svona týpískt dæmi um mynd sem hefði átt að enda í hléi, því eftir það missir hún alveg flugið. Byrjar mjög vel og allt virðist ganga vel en þegar kókið sem ég keypti í hléinu var að klárast fór allt að versna. Sorglegt að svona góð byrjun verði að svona hreint bjánalegum endi. Annars eru leikararnir alveg príma í flestum ef ekki öllum hlutverkum og öll ytri umgjörð, þ.m.t. auglýsingarnar, mjög flott en handritshöfundurinn virðist hafa skotið sig í fótinn undir rest. Tvær stjörnur fyrir góðan fyrri klukkutíma og flotta leikara, sem og afspyrnusæta stelpu í miðasölunni.
Frábær spennumynd sem fjallar um lögreglumann sem tekur gísla í skrifstofubyggingu í tilraun til að hreinsa sig af glæp sem hann framdi ekki. Maður gjörsamlega gleymir sér í allri spennunni, það var komið hlé áður en ég vissi af. Leikararnir standa sig allir með prýði en myndin skartar mörgum kunnuglegum andlitum. Samuel Jackson leikur hlutverk söguhetjunnar af miklum ákafa og Kevin Spacey er líka góður. Litríkar aukapersónur bæta líka miklu við myndina. Yfir heildina litið kom það mér á óvart hversu góð myndin var miðað við sinn frekar ófrumlega Hollywood titil. Ég vona að við munum sjá fleiri svona spennumyndir á næstunni.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Aldur USA:
R
Frumsýnd á Íslandi:
20. nóvember 1998
VHS:
27. maí 1999