Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Paul 2011

Frumsýnd: 13. maí 2011

There were many sights they planned to see. This was not one of them.

104 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 70% Critics
The Movies database einkunn 57
/100

Tveir vísindaskáldsögu-nirðir fara í pílagrímaferð til aðal geimverustaðarins í Bandaríkjunum. Þar hitta þeir óvænt geimveru sem fer með þeim í klikkaða bílferð sem á eftir að breyta tilveru þeirra til frambúðar. Síðustu 60 ár hefur geimveran Paul haldið til á leynilegri herstöð. Af ókunnum ástæðum þá ákveður þessi montna geimvera að... Lesa meira

Tveir vísindaskáldsögu-nirðir fara í pílagrímaferð til aðal geimverustaðarins í Bandaríkjunum. Þar hitta þeir óvænt geimveru sem fer með þeim í klikkaða bílferð sem á eftir að breyta tilveru þeirra til frambúðar. Síðustu 60 ár hefur geimveran Paul haldið til á leynilegri herstöð. Af ókunnum ástæðum þá ákveður þessi montna geimvera að flýja stöðina og hoppa upp í fyrsta farartæki sem hún sér, en þar eru þeir fyrir þeir Graeme Willy og Clive Gollings. Þríeykið er nú hundelt af ríkislögreglumönnum og æstum föður ungrar konu sem þeir ræna af misgáningi. Graeme og Clive ákveða nú að reyna að skila Paul aftur í geimskipið. ... minna

Aðalleikarar

Edgar, komdu aftur!
Ef þú ert eins og ég og dáir Spaced, Shaun of the Dead og Hot Fuzz þá er óhjákvæmalegt að vera ekki pínulítið spenntur fyrir Paul þar sem hún hefur báða Simon Pegg og Nick Frost saman á ný. Þeir tveir eru fæddir til þess að spila á móti hvor öðrum og sem tvíeyki eru þeir með því eftirminnilegasta sem hefur komið frá Bretlandi í háa herrans tíð. Væntingar manns gagnvart Paul tjúnast dálítið upp þegar maður tekur eftir að þeir leika ekki einungis saman í henni, heldur skrifa þeir hana alveg sjálfir. Skellið svo inn í blönduna Greg Mottola, leikstjórann sem gerði m.a. Superbad og Adventureland (tvær góðar myndir með stór hjörtu), heilan graut af efnilegum aukaleikurum og segið mér svo að það sé ekki hægt að gera sér smá vonir.

Áður var Edgar Wright sá sem skrifaði handritin með Pegg en hann hefur sennilegast verið of upptekinn að gera Scott Pilgrim þegar þessi fór í framleiðslu. Eftir að hafa séð Paul er ég orðinn ansi sannfærður um að hann sé fyndnari aðilinn af þeim tveimur. Scott Pilgrim sýndi líka hvað maðurinn stendur sig vel á eigin fótum (enda mergjuð mynd) á meðan Paul nær aldrei þeim hæðum sem hún hefði svo sannarlega getað náð. Hún gaf mér aldrei þessa “hlæðu þar til þig verkjar” tilfinningu sem hún hefði átt að gera. Í besta falli hélt hún mér brosandi, með fáeinum flissum á milli. Það ófyrirgefanlega er samt það að hún virðist ekki mikið eltast við það að vera stöðugt fyndin. Hún stefnir frekar að því að vera viðkunnanleg og létt sci-fi mynd með ágætlega mörgum klisjum. Svo á köflum tekur hún sig svo undarlega alvarlega, sem er mjög súrt því ef eitthvað þá ætti hún einmitt að gera grín að sci-fi klisjunum. Shaun og Fuzz voru duldar spoof-myndir. Þær settu sér það markmið að tilheyra þeim bíógeira sem þær gerðu líka grín að. Þær tóku sig stundum alvarlega en sjaldan án þess að hafa húmor fyrir því. Gáfur fundust einnig í stórum skömmtum og tilvísarnir í fyrirmyndir þeirra auglýstu sig sjaldan. Af hverju gat Paul ekki orðið þannig líka?

Það er kannski ekki sanngjarnt að bera þessa mynd saman við Wright-myndirnar bara vegna þess að sömu leikarar eru í þeim, en þegar húmorinn er ekki það sem stendur upp úr og sagan heldur ekki jafn heillandi og hún heldur, þá er óeðlilegt að þrá ekki eitthvað örlítið óhefðbundnara og snjallara. Sagan er fyrirsjáanleg út í gegn (hugsið um flestar vegamyndir og “komum-geimverunni-heim” myndir sem þið hafið séð) og oftar en ekki þreytist eltingarleikurinn og þeir brandarar sem fylgja með honum.

Húmorinn er ekki sérlega ferskur heldur, frekar bara máttlaus og nokkuð einhæfur. Hann einkennist aðallega af sífelldum endurtekningum og tilvísunum sem eiga að kæta okkur nördana, en gallinn er bara sá að handahófskenndar tilvísanir eru ekki jafn fyndnar þegar þeim er svona oft hent út af engri sérstakri ástæðu. Sumar eru fyndnar, sérstaklega þegar þær þræðast inn í samræður eða atvik en annars er þetta bara pínlegt. Það er líka takmarkað hversu oft það er hægt að hlæja að sama typpabrandaranum á kostnað geimverunnar. Sú persóna er sömuleiðis gangandi brandari í sjálfu sér, og sennilega einhver sem hefði betur virkað í sketch en kvikmynd. Hugmyndin um blótandi geimveru sem drekkur og reykir gras er skondin, en ekki beint eitthvað sem lætur þig kafna. Tilraunir eru gerðar til þess að gera karakterinn Paul viðkunnanlegan, og þær ganga alveg upp en ég átti erfitt með að sjá fyrir mér annað en Seth Rogen í hljóðstúdíói í staðinn fyrir alvöru persónu. Ekki halda að tölvugrafíkin feli það eitthvað (þó svo að hún sé hrikalega góð samt sem áður), og hvort sem ykkur líkar það betur eða verr þá er þetta sami gamli Rogen og við höfum oft áður séð... eða heyrt í.

Frost og Pegg valda að sjálfsögðu engum vonbrigðum hvað samspil varðar og mynda trúverðug vinatengsl. Gallinn? Vantar meiri húmor! Jason Bateman, Bill Hader, John Carrol Lynch og Joe Lo Truglio eru einnig ágætir. Sami galli – ekki nógu oft fyndnir. Og miðað við hversu ýktir þeir eru oft er það í rauninni stærri ókostur í þeirra tilfelli. Kristen Wiig er rosa viðkunnanleg þótt eini tilgangur hennar er vera til staðar svo það sé smá rómantík í gangi (var brómantíkin semsagt ekki nóg??), og líka til að þrasa við andtrúanlegu pælingar aðalpersónunnar. Það er margt gott í þessum útúrsnúningum á biblíuna, en verst er að umræðurnar stefna í raun hvergi. Ég botna heldur ekki alveg í ójafna tóninum á þessari mynd. Hún er stundum ærslafull og reynir annaðhvort of mikið á sig eða bara alls ekki neitt. Svo koma langar pásur inná milli til að byggja upp hjartnæman fílgúdd endi sem er síðan bara pirrandi og hálf væminn. Persónurnar eru allar skítsæmilegar en ekki nógu minnisstæðar eða athyglisverðar til að öðlast umhyggju áhorfandans. Ég næ ekki alveg hvort helstu gallana má rekja til handrits sem er bara ekki það fyndið eða skemmtilegt, eða leikstjórnar sem feilar oft allsvakalega á kómískri tímasetningu. Ég giska bæði.

Myndin vill samt rosalega vel og ef það er eitthvað sem má sjá út frá endalausu sci-fi-tengdu tilvísunum þá er það að Pegg og Frost eru grjótharðir aðdáendur geirans. Paul átti aldrei að vera spoof-mynd á hann, heldur ástarbréf sem færir þér smá hlýju og skrípalæti í þokkabót. Hún hefði samt hiklaust átt að stefna í hina áttina að mínu mati því lokaafraksturinn er hlægilega ómerkilegur. Ef þú ert sci-fi nörd – eins og ég – þá mun þér bókað ekki leiðast yfir Paul en þú munt örugglega finna fyrir því hvað hún hefði getað orðið miklu betri.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn