Náðu í appið
Bönnuð innan 16 ára

The Box 2009

Frumsýnd: 27. nóvember 2009

You Are The Experiment

115 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 42% Critics
The Movies database einkunn 47
/100
Visual Effects Society Awards 2010: Tilnefnd: Framúrskarandi sjónbrellur í „aukahlutverki“

Norma og Arthur Lewis, par sem býr í úthverfi ásamt ungu barni sínu, fá gefins einfaldan trékassa, sem á eftir að draga dilk á eftir sér. Dularfullur ókunnugur maður segir þeim að kassinn muni færa eiganda sínum eina milljón dala ef ýtt er á einn hnapp. En þegar ýtt er á hnappinn muni samstundis ein manneskja einhversstaðar í heiminum deyja; einhver sem... Lesa meira

Norma og Arthur Lewis, par sem býr í úthverfi ásamt ungu barni sínu, fá gefins einfaldan trékassa, sem á eftir að draga dilk á eftir sér. Dularfullur ókunnugur maður segir þeim að kassinn muni færa eiganda sínum eina milljón dala ef ýtt er á einn hnapp. En þegar ýtt er á hnappinn muni samstundis ein manneskja einhversstaðar í heiminum deyja; einhver sem þau þekki ekki. Þau fá að hafa kassann í aðeins 24 klukkutíma, og á þeim tíma þurfa þau Norma og Arthur að gera upp við sig hvað þau vilja gera. ... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Leiðinlegasta mynd árið 2009!
The Box fjallar um hjón sem á við fjárhagsvandamál að stríða. Einn daginn kemur maður með kassa og býður þeim eina milljóna dollara ef þau ýtta á takka inn í kassanum. Afleiðingin af því er að einhver, einhversstaðar mun deyja.

SMÁ SPOILER KANNSKI

Þau ákveða að ýta á takkann og taka við peningunum. Þá byrjar fólk að elta þau og fullt af dularfullum hlutum.

Með dularfullum hlutum bjóst ég ekki við kona að lyfta vatninu með hugarorku og fullt af þannig kjaftæði. Ég bjóst við háklassa spennumynd eins og Donnie Darko en í staðinn fékk ég eitthvað algjört kjaftæði. Góðir leikarar, góður leikstjóri, ágætur söguþráður (byrjunin). Hvað getur klikkað? Leikararnir leika vel, allt er í flottum 80's fíling, flottar tæknibrellur, góð saga. Samt hefði ég viljað labba út úr henni í hlé en ég gerði það ekki því fyrri helmingur var ekkert miðað við seinni. Það er, eins og Tommi sagði, mikið að gerast en samt ekkert! Hún er aldrei spennandi, hrollvekjandi og vekur mann ekki til umhugsunar um lífið og tilveruna. Ég hef ekki séð Old Dogs og því er þetta leiðinlegasta mynd 2009, kannski ekki versta því hún er vel gerð og flott.

2/10
Stig fyrir umhverfi og leik. Annað stig fyrir endinn. Það þarf kjark til þess að enda Hollywood-mynd svona.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Vonbrigði en ekki mikil vonbrigði
Richard Kelly er leikstjóri sem ég fíla talsvert, Southland Tales þvílíkt góð og Donnie Darko algjört meistaraverk og því þykir mér leitt að segja að nýjasta myndin hans er ekkert sérlega góð. The Box er samt alls ekki sem verst og lofar góðu til að byrja með og mér fannst hún alveg ágætlega spennandi en smám saman fer að halla undan fæti og ég fór að missa áhugann á henni þegar ég sat inni í bíósalnum. Hún fór að verða minna dularfull og plottið ekki það sem ég vonaðist eftir. En vel leikin er hún, Cameron Diaz hefur ekki verið svona góð lengi og James Marsden leikur hér skemmtilegri persónu en Cyclops sem hann lék í X-Men myndunum. Restin af castinu er líka í lagi en þau tvö halda myndinni uppi. 70's myndatakan hjá Kelly er flott og tónlistin alveg ásættanleg, umgjörðin fyrri partinn er sterk en allt þetta er ekki í samræmi við lokaútkomuna. Richard Kelly hefði getað gert snilldarmynd út úr þessu en þá hefði þurft að breyta svo miklu í seinni hluta handritsins. Tvær stjörnur frá mér, þetta er miðlungsmynd, áhorfsins verð en ekki nálægt því eins góð og Donnie Darko.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Svo mikið um að vera, en samt svo lítið
Sumar sögur eru betur sagðar á hálftíma í stað þess að vera teygðar í tvo klukkutíma með alls kyns uppfyllingum sem passa ekkert við grunnhugmyndina. Frank Darabont er gott dæmi um leikstjóra sem kann að fikta með örsögur og nær vel að fylla upp í kvikmyndalengd. Richard Kelly sýnir rosalegan metnað hérna - eins og alltaf - með hugmyndaflugið í botni, en það er afskaplega erfitt að mæla með mynd sem er eins mikill hrærigrautur af kostum og göllum og The Box er. Hún er suddalega athyglisverð í fyrri helming, eins athyglisverð og góðar mysteríur gerast. En um leið og hún byrjar að útskýra allt fyrir manni byrjar hún smám saman að dala og verður að lokum að algjörri vitleysu. Svona mynd á að fá mann til að brjóta heilann eftirá, en ég var hreinlega bara pirraður.

Kelly reynir að ganga milliveginn með nálgunina á efninu. Hann hefur greinilega viljað búa til mynd sem fullnægir þörfum hans fyrir að segja djúpa, lagskipta og óhefðbundna sögu ásamt því að geta höfðað til fleira fólks með meira "commercial" mynd. Og þegar maður er að spila mynd fyrir meðaljónanna er lykilatriði að þeir hugsi sem minnst, bæði á meðan áhorfi stendur og eftir sýningu. The Box þ.a.l. útskýrir nánast hvert einasta smáatriði, sem algjörlega drap ráðgátuna fyrir mér. Hún gjörsamlega pínir sig áfram í seinni helming og verður sífellt vandræðalegri með hverri mínútu. Kelly misstígur sig nokkuð oft með handritið, en sem leikstjóri er hann ennþá mistækari hérna. Myndin flæðir mjög illa og nær aldrei að rísa upp úr kjánaskapnum. Fullt af senum eiga t.d. að vera alvarlegar og jafnvel óhugnanlegar en ég komst ekki hjá því að hlæja að sumum þeirra (og reyndar hálfur salurinn líka).

Stærsta vandamálið við The Box liggur þó í efnistökunum. Myndin byrjar og spilast út nákvæmlega eins og The Twilight Zone-þátturinn sem hugmyndin er byggð á. Það er sena cirka 35 mínútum inn í myndina þar sem persóna hans Frank Langella kemur og endurheimtar "kassann" eftir að hjónin ákveða hvað þau gera (engar áhyggjur, skal ekki segja frá) og á þeim tímapunkti endaði þátturinn. Það er fullkominn endir á stutta sögu sem vekur ýmsar spurningar um siðferði og óvissu, en í myndinni er þetta aðeins byrjunin. Eftir að "þátturinn" endar, þá tekur allt annar þráður við. Sumt efni þarf bara ekki á framlengingu að halda, og ég held m.a.s. að Kelly hafi fattað það. Myndin gefur það allavega í skyn, því afgangurinn á sögunni er allt öðruvísi og algjörlega úr takt við fyrri hlutann. Fjölbreytni er að sjálfsögðu ekki slæmur hlutur, en hérna leið mér eins og ég væri að horfa á tvær ólíkar myndir. Upprunalegi söguþráðurinn tekur loks aftur við í lokasenunni, en lokaniðurstaðan er gríðarlega ófullnægjandi. Mér leið eins og myndin hafi svindlað á mér og mestmegnis staðið á sama með helminginn af efninu, sem er óviðeigandi þegar um mysteríu er að ræða.

The Box er merkileg hrúga, efnislega séð, en myndin lítur frábærlega út. Kvikmyndatakan er gullfalleg og Kelly fangar '70s fílinginn afskaplega vel. Tónlistin eftir hljómsveitina Arcade Fire er líka skuggalega góð. Hún er "moody" og minnir á köflum á eitthvað úr Hitchcock-mynd. James Marsden og Cameron Diaz standa sig einnig ótrúlega vel. Annað en margt annað í myndinni þá eru persónur þeirra vel skrifaðar og feilar áhorfandinn aldrei á því að styðja þær. Frank Langella kemur sjálfur vel út sem dularfulli, afmyndaði "Kassamaðurinn," og stafræna förðunin hans er með ólíkindum (jafnvel betri en á Two-Face í The Dark Knight).

Mér finnst merkilegt að þótt að Kelly misstígi sig í handriti og leikstjórn þá er samt erfitt að missa álit á honum. Hann er einhver djarfasti og áhugaverðasti leikstjórinn á bandarískum markaði í dag. Hann er enn að byrja og vonandi lærir af mistökum sínum. Eins og meirihlutinn gerði þá elskaði ég Donnie Darko og ég held að ég sé einn af aðeins örfáum sem hataði ekki Southland Tales. Það er búið að vera áhugavert að fylgjast með þróun leikstjórans. Darko, að mínu mati, var fullkomin mystería; Hún útskýrði ekki of lítið og alls ekki of mikið. Southland útskýrði ekki nógu mikið og The Box veitir manni alltof, alltof mörg svör þannig að það er ekkert eftir til að hugsa um sjálfur þegar hún er búin. Kelly þarf á einhverjum góðum handritslækni að halda til að hjálpa honum að meta hvenær fulllagt er gengið.

Annars held ég að The Box hafi verið frekar vonlaus mynd frá upphafi. Grunnhugmyndin er frábær en hún var líka best nýtt í hálftíma löngum þætti. Kvikmyndin er athyglisverð, stundum spennandi, ávallt vel unnin en verður síðan hlægileg og fer út í allar áttir á þeim tíma þar sem áhorfandinn vill vera nagandi á sér neglurnar úr spenningi. Tilvísanirnar í biblíuna (Adam og Evu söguna sérstaklega) eru líka voða hallærislegar að þessu sinni og það mætti léttilega túlka það að leikstjórinn hafi eitthvað mikið á móti konum.

5/10


PS. (SPOILER!)


Í næstu mynd sinni er þrennt sem Kelly má alveg sleppa: Dularfull upplýsingabók, tölvugerðir vökvar og heimsendir. Hann er búinn að nota þetta núna þrisvar í röð.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn