Náðu í appið

Red State 2011

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 30. september 2011

97 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 61% Critics
The Movies database einkunn 50
/100

Þrír unglingsstrákar svara auglýsingu frá eldri konu í leit að drengjum sem eru til í að stunda með henni hópkynlíf. Kynórar piltanna verða þó fljótlega að martröð þegar í ljós kemur að um er að ræða brellu sem íhaldssamur bókstafstrúarsöfnuður stendur fyrir. Séra Abin Cooper, prestur safnaðarins, hefur það eitt á stefnuskránni að messa yfir... Lesa meira

Þrír unglingsstrákar svara auglýsingu frá eldri konu í leit að drengjum sem eru til í að stunda með henni hópkynlíf. Kynórar piltanna verða þó fljótlega að martröð þegar í ljós kemur að um er að ræða brellu sem íhaldssamur bókstafstrúarsöfnuður stendur fyrir. Séra Abin Cooper, prestur safnaðarins, hefur það eitt á stefnuskránni að messa yfir og aflífa synduga í löngum stólræðum.... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Ertu að f#%"$! grínast, Kevin?
Kevin Smith hefur aldrei flokkast sem kvikmyndagerðarmaður í mínum huga. Hann er skarpur, fyndinn en á sama tíma örlítið barnalegur handritshöfundur sem hefur ansi vel náð að festa hversdagsleikann á filmu ásamt því að vera góður að velja leikara (mínus Linda Fiorentino og Tracy Morgan). Smith hefur lengi viljað getað sýnt að það búi alvöru leikstjóri í honum en ekki bara latur bíó- og myndasögunörd sem reykir gras allan daginn og gerir myndir handa sömu aðilunum aftur og aftur, sem oftar en ekki eru nákvæmlega eins og hann í persónuleika.

Fyrsta tilraunin, Jersey Girl, misheppnaðist smá. Hún meinti vel, hafði gott hjarta en einnig klisjukennt og yfirdrifið væmið handrit. Eftir hana snéri Smith sér aftur að því sem hann gerir best og pungaði út tvær hrikalega skemmtilegar myndir (Clerks II og Zack & Miri - sem voru VÍST góðar!) sem voru honum alveg jafn persónulegar og Jersey Girl en höfðu frábæran húmor og miklu meira til að segja. Í smástund hélt ég að Smith hefði áttað sig á því að fjölbreytni væri ekki hans stíll. Meira að segja Michael Bay áttaði sig á því sama eftir að hafa drepið alla úr leiðindum með Pearl Harbor. Á síðasta ári ákvað Smith að prófa sig áfram í "buddy-cop" mynd af gamla skólanum en misheppnaðist aftur. Hvers vegna? Útaf því að handritið var ófyndin klisjukássa og leikararnir reyndu annað hvort alltof mikið á sig eða bara ekki neitt.

Nú í þriðja sinn ætlar Smith að reyna að sanna fyrir öllum að hann geti gert eitthvað öðruvísi og það fer svosem ekki á milli mála að Red State sé hans djarfasta tilraun til þessa. Því miður er þetta líka mest frústrerandi myndin sem hann hefur nokkurn tímann gert. Hún er ekki jafn leiðinleg og Cop Out, en hún gerði mig svo reiðan eftirá að ég var í smástund farinn að halda að Smith væri að djóka í okkur öllum.

Það góða við Red State liggur aðallega í hugmyndum hennar. Söguþráðurinn, um leið og maður er búinn að finna hann, er nokkuð athyglisverður í fyrstu og myndin vekur upp ýmsar umræður um ofsatrú og réttlæti í nafni biblíunnar. Michael Parks (sem er skelfilega vanmetinn leikari) er sömuleiðis rafmagnaður sem vafasamur leiðtogi kirkjugrúppu sem finnur sín eigin mörk um hvernig skal fylgja kristinnu trúnni. Það sýður nánast upp úr þessum manni hrein mistúlkuð geðveiki og þó svo að hlutverkið sé grunnt (og sumstaðar eru senurnar með persónunni alltof langar) fer Parks alla leið með það. Melissa Leo er líka nokkuð góð sem hin álíka sturlaða dóttir hans og John Goodman gerir sitt albesta með það sem honum er gefið. Ég held að flestum eigi eftir að líka best við karakterinn hans.

Tökustíll myndarinnar er skemmtilega fjölbreyttur. Stundum erum við föst í hefðbundinni indie-mynd en á öðrum tímapunkti er eins og Joe Carnahan (þegar hann var nýbyrjaður) eða Neveldine/Taylor-tvíeykið hafi tekið við framleiðslunni. Kvikmyndatakan endurspeglar skemmtilega óþægindi aðstæðna og í slíkum ákvörðunum sér maður að Smith hefur eitthvað vaxið sem leikstjóri. Hljóðvinnan er einnig helvíti góð.

Þar sem Red State fellur í sundur er eiginlega allsstaðar annars staðar, og handritið er númer eitt, tvö og þrjú. Til að byrja með þá er öll bévítans sagan einhver mesta óskipulagða óreiða sem ég hef séð síðustu misseri. Myndin hefur enga hugmynd um hvar fókusinn hennar liggur, hvaða persónur skipta mestu máli eða hvaða skilaboðum hún vill koma á framfæri í lokin. Smith virðist heldur ekki hafa minnstu hugmynd um hvernig mynd hann hefur reynt að gera. Hún auglýsir sig sem hrollvekja en gæti varla verið lengra frá þeim geira. Það eru kannski í mesta lagi tvær ákafar og taugatrekkjandi senur sem ættu kannski í indí-hrollvekju en annars er myndin að hendast á milli þess að vera svört gamanmynd, ádeila, steikt hasarmynd og lögguþriller. Ekkert af þessu gengur upp og þegar maður sér að handritið er sífellt að blekkja mann með því að kynna til leiks glænýjar persónur missir maður tökin á því að fylgja atburðarásinni og á endanum gefst maður upp.

Þegar myndin er cirka hálfnuð hættir hún að snúast um ofsatrú, fórnir og fordóma og breytist í risastóra kaótíska skothríð. Frásögnin er þarna í miklu rugli vegna þess að sérsveit kemur næstum því bara algjörlega upp úr þurru og í kjölfarið breytist sagan úr einni í aðra. Þessi óvenjulega frásögn hefði samt getað virkað ef áhorfandinn næði að tengja sig við eitthvað af persónum myndarinnar en þær koma bara allar og fara og ekki með neinum sérstökum tilgangi. Á fyrstu 20 mínútunum fylgjumst við með þremur greddudrifnum menntskælingum (tveir af þeim léku saman í Sky High), svo tekur illa ofsatrúaða fjölskyldan við og eftir það, þegar myndin er hálfnuð, er Goodman kynntur til leiks eins og hann sé aðalpersónan. Svo bætist við einhver aukasöguþráður um stelpu úr fjölskyldunni sem vill bjarga ungbörnunum en það verður aldrei að neinu. Eruð þið að ná því hvað þetta er sundurtætt allt saman??

Myndin nær aldrei að byggja upp neina spennu um leið og skothríðin byrjar, og ástæðan er ekki flóknari en sú að manni er skítsama um HVERN EINASTA karakter. Goodman er svosem viðkunnanlegur, en maður fær aldrei þá tilfinningu að maður eigi að halda með honum.

Smith missir samt allt niður um sig í lokasenunum, eins og hann hafi ekki pælt neitt í því hvernig ætti að ljúka þessari steypu. Hann stríðir okkur með býsna kjarkmikilli (en einnig heldur kjánalegri) úrlausn sem breytist síðan ekki í neitt annað en svindl-endi þar sem ein persónan neyðist til að útskýra allt sem gerðist í raun. Endirinn er hin versta blanda af hallærislegri tilviljun og deus ex machina-reddingu. Þarna fórstu yfir strikið, Kevin!

Mér finnst hneykslandi að mynd sem hefur svona beittan og djarfan grunn skuli breytast í svona hatursverðan brandara. Ég hélt allan tímann athygli til að sjá hvert þetta allt saman stefndi, svo ég get alls ekki sagt að mér hafi leiðst, en myndin versnaði bara og versnaði þegar lengra leið á hana. Klippingin fær heldur ekkert húrrahróp, en hún gerði mig brjálaðan sumstaðar.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn