Náðu í appið
Bönnuð innan 7 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börnÍ myndinni er ljótt orðbragð

Johnny English Reborn 2011

(Johnny English 2)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 23. september 2011

A little intelligence goes a long way

101 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 38% Critics
The Movies database einkunn 46
/100

Johnny English þarf að stöðva hóp alþjóðlegra leigumorðingja áður en þeir myrða þjóðhöfðingja og valda miklum usla um allan heim. Á árunum sem hafa liðið síðan MI-7 spæjarinn fór í felur, þá hefur hann notið þjálfunar í fjarlægum hluta Asíu. Þegar yfirmenn hans hjá leyniþjónustunni komast að því að forseta Kína hafi verið sýnt tilræði,... Lesa meira

Johnny English þarf að stöðva hóp alþjóðlegra leigumorðingja áður en þeir myrða þjóðhöfðingja og valda miklum usla um allan heim. Á árunum sem hafa liðið síðan MI-7 spæjarinn fór í felur, þá hefur hann notið þjálfunar í fjarlægum hluta Asíu. Þegar yfirmenn hans hjá leyniþjónustunni komast að því að forseta Kína hafi verið sýnt tilræði, þá verða þeir að finna þennan óvenjulega spæjara sinn. Nú verður English að taka til sinna ráða með hjálp ýmiss konar hátæknibúnaðar, eins og honum einum er lagið. ... minna

Aðalleikarar

Steiktari húmor með aðeins minni heimsku
Er Johnny English 2 góð mynd? Ekki í þeim skilningi, nei. Það er hægt að fara yfir marga ókosti og má meðal annars nefna mistæka klippingu (mest í byrjun), mistæka tónlist (aftur, mest í fyrri helming) og almennt klisjukenndan söguþráð. En hló ég? Já, og það vel. Ég hef aldrei elskað fyrri myndina eins og svo margir gera heldur einungis fílað hana og hlegið að fáeinum atriðum og kjánahrollast yfir öðrum. Þessi mynd gerir mjög mikið það sama og sú fyrsta, en húmorinn er að mínu mati mun betur heppnaðri þó það líði stundum aðeins of langt milli brandara.

Ég held í rauninni ekki að ég myndi hlægja svona mikið eftir fremur misheppnaðan fyrsta hálftíma en um leið og kom að ákveðnu atriði með gamalli konu (seinna skiptið!) kafnaði ég næstum úr hlátri ásamt stútfullum bíósal af fólki sem toppaði léttilega dósahlátursfólkið úr Friends (og ég meina það, það var aldrei þögn!) Ég var kannski ekki alveg á sömu nótunum og þau en mörg atriði í þessari mynd létu mig bókstaflega öskra af hlátri sem ég geri vanalega ekki. Rowan Atkinson hefur aldrei verið í uppáhaldi og án hans hefði myndin misheppnast hryllilega.

Ef maður kíkir út fyrir húmorinn (sem var ekki alltaf góður, ég minni á það!) eru alveg aðrir kostir. Til dæmis er hasarinn líflegri og skemmtilegri en Hong Kong-kaflinn var léttilega teygður enda bara byggður á bröndurum, ekki spennu. Hinir leikararnir skilja svosem ekkert eftir sig og það var aldrei hlegið að öðru nema Atkinson. Söguþráðurinn hefur að vísu meira kjöt á beinunum en fyrri myndin. Þrátt fyrir það er myndin bullandi fyrirsjáanleg enda bara copy-paste úr mörgum James Bond-myndum. Svo hvað var kínverska konan að gera? Svona án djóks, hún birtist bara af og til og ég held því fram að eini tilgangurinn hennar hafi verið svo ákveðið running gag gæti troðst fyrir í frásögninni (ég hló samt).

Rowan Atkinson á ekki bara myndina heldur ER hann nánast myndin og eins og venjulega stendur hann sig bara vel með furðulátunum sínum. Ég hef ekki hlegið svona mikið að atriðum í ár en leiðinlegt að það gátu ekki verið aðeins fleiri, allavega í fyrri helming. Ég gef henni mjög létt meðmæli fyrir þá sem vilja eitthvað létt og þessi mynd er greinilega sú eina sem finnst af þeim geira í bíó núna.

6/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ekkert nýtt sem hefur ekki feilað áður
Ég myndi segja að svona 75% af öllum framhaldsmyndum sem koma út eru tilgangslausar og stundum er maður svo gáttaður af hverju sumar þeirra fóru í framleiðslu að hálfa væri haugur. Johnny English Reborn er ein af þessum "þurftum-við-í-alvörunni-aðra-svona?" myndum. Ég mundi varla einu sinni eftir fyrstu myndinni þangað til ég komst að þessari. Heil átta ár þarna á milli, sem gerir þetta að ennþá handahófskenndara framhaldi en þegar The Legend of Zorro kom skyndilega út sjö árum á eftir forvera sínum. Myndin er samt alls ekki drasl, bara… óþörf. Hún gerir allt sem maður býst við af henni, og það meina ég ekki á góðan hátt í þessu tilfelli.

Fyrri Johnny English-myndin var voða týpísk spæjaragamanmynd sem fór beint eftir Bond-paródíu uppskriftinni. Sumt var fyndið í henni, annað ófyndið og þrátt fyrir að vera stutt þá var hún u.þ.b. lengri en hún þurfti að vera. Reborn-myndina mætti varla kalla framhald eða sjálfstætt ævintýri og meira óbeina endurgerð. Hún byggist öll í kringum einn brandara: Titilkarakterinn og hálfviti sem einhvern veginn gerir alltaf aðstæður verri og vandræðalegri. Kannski er ég bara svona kröfuharður en oftast vill ég fjölbreyttan húmor þegar ég horfi á gamanmynd. Ég get ekki hlegið að sama hlutnum eftir að honum hefur verið veifað framan í mig í hálftíma.

Ég veit ekki alveg hvernig skal flokka þennan húmor. Þetta er svona blanda af dæmigerðu bandarísku misskilningsgríni og breskum farsa sem þykist vera snjall en er það ekki. Johnny English er allt annað en snjöll, hnyttin eða sniðug. Þetta er ein þessara mynda sem hefur ábyggilega ekki tekið langan tíma að skrifa. Takið bara einhverja handahófskennda Bond-mynd, strípið söguþráðinn aðeins niður og bætið við slapstick-gríni eða annars konar vitleysu að hætti Atkinsons inn í hverja einustu senu. Engar aðrar breytingar, bara þetta.

Að utanskildum Rowan Atkinson er enginn hérna sem tekur sitt hlutverk alvarlega, eða sýnir því nokkurn áhuga. Atkinson er áberandi hress í hálfvitaskap sínum en fyrir utan kannski gaurinn sem lék hjálparhellu hans (pínu skondinn karakter) eru allir aðrir í myndinni hálf sofandi. Enginn sem kom að myndinni (ekki einu sinni leikstjórinn) sýndi verkinu neina trú nema aðalleikarinn og það er líklegast bara svo hann liti ekki út eins og ennþá fífl með því að reyna eitthvað á sig. Áhorfendur koma til að sjá hann með hamagang og asnaskap, og hann yrði ekki í góðu áliti hjá þeim ef hann lítur ekki út fyrir að nenna þessu.

Ég virði Atkinson oft sem grínista en ég hef persónulega aldrei fattað vinsældir Herra Beans. Sumt af því hefur verið fyndið en oft á tíðum líður mér bara eins og Atkinson sé að gretta sig, gera fyndinn hljóð og vera með aulastæla svo krakkar og þeir sem hlæja að öllu borgi fyrir að sjá þetta. Geðheilsan hjá Mr. Bean er mér líka alltaf jafnstórt spurningarmerki, og á ég oft erfitt með að fatta hvort maðurinn sé með Asperger eða bara hreinlega þroskaheftur. Ef það er einhver djúp ádeila í þessu þá er ég allavega ekki búinn að sjá hana. En það er svosem allt, allt annar handleggur. Johnny English er þó ekki ósvipaður karakter, og á meðan ég horfði á báðar myndirnar spurði ég sjálfan mig í mörgum tilfellum: "Af hverju er þetta gimp að starfa sem njósnari??" Einhvern veginn fór ég semsagt að pæla meira í lógík heldur en að hlæja. En ég hafði svosem ekkert annað að gera.

Ef fyrsta Johnny English myndin er einhver snilld að þínu mati þá mun þér líka alveg jafn vel við þessa (kannski aðeins minna). Myndin virkar ekki samt á mann eins og mikil framhaldsmynd (frekar en flest allar Bond-myndirnar fyrir árið 2006) og ef þú ákveður að gefa myndinni séns án þess að þekkja til forverans þá þarftu bara eitt að vita: Blackadder-aðdáendur skulu forðast þetta. Mr. Bean-aðdáendur verða mjög hrifnir hins vegar. Það er risastór gjá þarna á milli þessara þátta ef um er einhvern greindarmun að ræða. Þú ættir að vita hvert þú flokkast. Og ef þú ert hvorki fyrir Blackadder né Mr. Bean þá er vel ljóst að Johnny English mun ekki gera mikið fyrir þig annað en að taka af þér dýrmætan tíma.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn