Olympus has Fallen 3 fær nafn – Butler snýr aftur

Gerard Butler hefur skrifað undir samning um að leika í þriðju Olympus has Fallen myndinni, hlutverk leyniþjónustumannsins Mike Banning.  Myndin hefur einnig fengið nýtt nafn; Angel Has Fallen.

Fyrsta myndin, sem fjallaði um árás hryðjuverkamanna á forseta Bandaríkjanna og Hvíta húsið í Washington, hét Olympus has Fallen. Önnur myndin, sem fjallaði um árás hryðjuverkamanna á leiðtogafund í London, þar sem leiðtogar heimsins voru samankomnir til að vera við jarðarför forsætisráðherra Bretlands, hét London has Fallen.

butler

Enginn leikstjóri hefur enn verið ráðinn í nýju myndina, en Creighton Rothenberger og Katrin Benedikt, sem bæði skrifuðu handrit fyrstu tveggja myndanna, og eru höfundar seríunnar, snúa aftur sem handritshöfundar.

Deadline greinir frá því að Mike Banning verði sjálfur skotmark hryðjuverkamanna í nýju myndinni, auk þess sem hryðjuverkasamtök reyni að gereyða hálfri Washington borg, og forseta Bandaríkjanna, í einu vetfangi.

Heiti myndarinar er tilvísun í dulnefni forsetaflugvélarinnar Air Force One; Angel.

Equilizer leikstjórinn Antoine Fuqua leikstýrði fyrstu myndinni, en aðrir helstu leikarar í henni voru Morgan Freeman, Angela Bassett, Melissa Leo, Radha Mitchell og Cole Hauser.

Myndin þénaði 98,9 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og 161 milljón dala á alheimsvísu. Kostnaður var 70 milljónir dala. London has Fallen gekk verr í Bandaríkjunum en fyrsta myndin, þénaði 62,5 milljónir dala, en þénaði 133,2 milljónir dala utan Bandaríkjanna.  Kostnaður var 60 milljónir dala.

Stefnt er að því að hefja tökur á Angel has Fallen á fyrri helmingi næsta árs. Engir leikarar aðrir en Butler hafa verið ráðnir.

Butler sést næst í Geostorm og Hunter Killer, auk þess sem hann ljáir persónu í How to Train Your Dragon 3 rödd sína.