Rambo söguþræði lekið á netið

Nýjum upplýsingum um söguþráð nýju Rambo myndarinnar, Rambo: Last Blood, hefur verið lekið á netið. Þar kemur fram að í myndinni sé John Rambo sestur í helgan stein og búi á búgarði í Bowie í Arizona fylki í Bandaríkjunum. Hann er illa haldinn af PTSD áfallaröskun, Post-Traumatic Stress Disorder.

Miðað við öll þau erfiðu mál sem Rambo hefur þurft að vinna í um ævina, og rakin hafa verið ítarlega í fyrri Rambo myndum, þá kemur þetta ekki alveg á óvart. Til að hjálpa honum að vinna úr sínum málum þá er komin til hans hjúkrunarfræðingurinn Maria. Rambo eyðir tíma sínum annars mest á barnum, eða að dytta að hinu og þessu á búgarðinum, auk þess sem hann tekur að sér einstaka verkefni í bænum Bowie.

Nú er við hæfi að vara fólk við, því eitthvað af því sem á eftir kemur gæti verið spilliefni ( spoilers ) fyrir myndina.

Samkvæmt upplýsingunum sem láku út, þá hefst myndin þegar ráðist er á hina 29 ára gömlu Carmen Delgado og átta ára gamla systur hennar Melissu um hábjartan dag, og þær dregnar inn í sendiferðabíl. Carmen sleppur, en Melissa ekki. Þegar John Rambo kemst að því að dóttir Mariu hefur verið rænt, þá ákveður hann að taka vopnabúrið niður af hillunni, og taka aftur til starfa, og elta viðkomandi og koma yfir þá lögum. En í þetta skiptið verður verkefnið erfiðara en nokkru sinni fyrr.

Nú ber svo við að Rambo kemst að því hvar glæpagengið, sem er í raun eiturlyfjahringur, heldur sig, og hann reynir upp á sitt einsdæmi ( að sjálfsögðu ) að ráða niðurlögum þorparanna. En það fer ekki betur en svo að gengið lemur hinn 70 ára gamla eftirlaunaþega í klessu.

Carmen Delgado bjargar honum og hjúkrar aftur til heilsu, á næstu þremur vikum. Í kjölfarið ákveða þau í sameiningu að ráðast gegn illvirkjunum.

Eins og sagt er á vefsíðunni MovieWeb þá hljóma upplýsingarnar trúverðugar, en rétt er að hafa þó allan fyrirvara á, enda eru heimildirnar nafnlausar. 

En sé þetta allt rétt, er klárlega von á góðu fyrir aðdáendur Rambo.

Sylvester Stallone, sem leikur Rambo eins og allir ættu að vita, hefur átt annríkt síðustu misseri, en hnefaleikamyndin Creed 2 kemur í bíó hér á Íslandi eftir rúma viku. Stallone þurfti að taka smá pásu frá tökum á Rambo 5 til að kynna Creed 2, en um leið og því er lokið snýr hann sér aftur að Rambo.