Rambo 5 heitir: Rambo: Last Blood

Eftir margra mánaða vangaveltur og umræður manna á milli, þá hefur Sylvester Stallone loksins opinberað heitið á næstu Rambo mynd, þeirri fimmtu í röðinni, og hugsanlega þeirri síðustu: Rambo: Last Blood.

rambo stallone

Leikarinn gerði þetta á frekar látlausan hátt, í öðrum fréttum svo að segja, en hann tísti fyrr í vikunni að hann ætlaði að taka upp ævisögulega mynd um Gregory „the Grim Reaper“ Scarpa, eftir að hann lyki tökum á Rambo: Last Blood.

Nú hefur leikarinn staðfest að um rétt nafn er að ræða.

Sjö ár eru síðan Stallone fór síðast í Rambo-gallann, sem Víetnamhermaðurinn John Rambo, en sú mynd, sem var bara þónokkuð góð, þénaði 113 milljónir Bandaríkjadala í sýningum um allan heim.

Allt síðan árið 2008 hefur hann talað bæði um að leggja persónuna ( sem kom fyrst fram í skáldsögu David Morrell First Blood frá árinu 1972 ) á hilluna til frambúðar, eða að koma með hana aftur í eitt síðasta skipti.

Stallone hefur greinilega ákveðið að gera hið síðarnefnda, en hann ætlar bæði að skrifa handrit og leikstýra myndinni, ásamt því auðvitað að leika aðalhlutverkið.

Stallone er með mörg járn í eldinum að vanda, og annar gamall kunningi er á leiðinni frá honum, sjálfur Rocky Balboa, en Stallone leikur hann í sjöunda skiptið, nú í leikstjórn Ryan Coogler, í myndinni Creed. Nú er Balboa orðinn þjálfari sonarsonar gamals andstæðings í hringnum, Apollo Creed, en aðalhlutverkið í myndinni, sonarsoninnn, leikur Michael B. Jordan. Coogler leikstýrði Jordan einmitt síðast í hinni rómuðu Fruitvale Station árið 2013.