Risahákarl óvæntur smellur – framhald mögulegt

Hákarlakvikmyndin The Meg með Jason Statham í aðalhlutverki, og Ólafi Darra Ólafssyni, í einu af aukahlutverkunum, virðist vera að slá óvænt í gegn í miðasölunni í Bandaríkjunum þrátt fyrir misjafna dóma gagnrýnenda.

Spár gerðu ráð fyrir að frumsýningarhelgin í Bandaríkjunum skilaði 20-22 milljónum bandaríkjadala í tekjur, en Variety kvikmyndaritið spáir því nú að myndin raki inn 32 milljónum dala, eða jafnvirði um 3,5 milljörðum íslenskra króna.

Á fimmtudagskvöldið námu tekjurnar 4 milljónum dala í forsýningum, sem er tvöfalt á við tekjurnar af forsýningum af Skyscreaper fyrir nokkrum vikum síðan, en myndirnar eru taldar höfða til sama markhóps. Skyscraper náði 24 milljóna dala tekjum yfir frumsýningarhelgi sína alla.

Og með þetta í hug spyrja menn, er von á framhaldsmynd?

„Ég held að þetta sé eins og annað þessa dsagana – ef að myndin græðir peninga, þá er klárlega vilji til að græða meiri peninga,“ sagði Statham við Entertainment Weekly.

„Og ef myndinni gengur ekki vel, þá verður henni sópað undir teppið. Þannig virkar þetta í Hollywood.

Allir reyna að gera góða kvikmynd, og það er svo í höndum áhorfenda að ákveða með framhaldið.“

Miðað við þessar aðsóknartölur verður The Meg aðsóknarmesta kvikmyndin þessa helgina í Bandaríkjunum, en Mission: Impossible – Fallout dettur þá niður í annað sætið, eftir þrjár vikur á lista, með 17 milljónir dala í tekjur.

Christopher Robin og BlacKkKlansman berjast svo um þriðja sæti listans. Hrollvekjan Slender Man gæti náð þriðja sætinu, sína fyrstu viku á lista.