Rodriguez kærir vegna milljarðs

robert rodriguezKvikmyndaritið Variety segir frá því að kvikmyndagerðarmaðurinn Robert Rodriguez sé búinn að leggja fram kæru á hendur aðilunum sem fjármögnuðu myndir hans Sin City 2 og Machete Kills, vegna vangreiðslu á 7,7 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæps milljarðs íslenskra króna.

Kæran var lögð fram sl. föstudag í Los Angeles af Rodriguez og tengdum félögum, gegn Sergei Bespalov, Marina Bespalov, Maddartico, Vrelonovama, Aldamisa Entertainment og SC2 Productions.

Kært er fyrir samningsbrot og blekkingar. Óskað er eftir réttarhaldi með kviðdómendum, og farið fram á skaðabætur.

Gefið er í skyn í kærunni að þegar peningarnir voru ekki greiddir á réttum tíma, þá hafi Rodriguez þurft að nota sína eigin peninga til að greiða handritshöfundinum Kyle Ward fyrir vinnu sína við Machete Kills.

Rodriguez var leikstjóri og framleiðandi beggja myndanna, sem hvorug náði þeim árangri sem vonast var til í miðasölunni.

Framleiðslukostnaður Sin City 2: A Dame to Kill For var áætlaður 65 milljónir dala, og aðalleikarar voru Bruce Willis, Mickey Rourke og Jessica Alba. Myndin var frumsýnd í ágúst sl. og þénaði 13 milljónir dala í Bandaríkjunum, og samanlagt 38 milljónir dala í sýningum um allan heim.

Helstu leikarar í Machete Kills voru Danny Trejo, Amber Heard, Mel Gibson, Sofia Vergara og Antonio Banderas. Myndin kom út á síðasta ári og kostaði 20 milljónir dala. Tekjur af sýningum um allan heim voru hinsvegar aðeins 15 milljónir dala.