Ný stikla úr Star Wars: The Force Awakens er komin á netið og lofar hún mjög góðu.
Daisy Ridley og John Boeyga leika aðalhlutverkin í myndinni og eru persónur þeirra Rey og Finn því áberandi í stiklunni.
Einnig heitir illmennið Kylo Ren því að ljúka við það sem Svarthöfði hóf á sínum tíma en myndin gerist 30 árum eftir atburði Return of the Jedi.
Han Solo, Leia prinsessa og Chewbacca úr upphaflega Star Wars-þríleiknum koma öll við sögu á meðan andlit Loga geimgengils sést hvergi. Þó er talið að hann sé hettuklæddi maðurinn sem sést eitt augnablik með R2- D2 í stiklunni. Athygli hefur vakið að Logi sést hvergi á plakati myndarinnar.
Star Wars: The Force Awakens er væntanleg í bíó hérlendis 17. desember og er hennar beðið með gríðarlegri eftirvæntingu.