Skemmtanagildi í grásprengda skítseiðinu

Góði yfirmaðurinn, á frummálinu El Buen Patrón, gerist í og við Blancos Básculas-verksmiðjuna, þar sem allt snýst um jafnvægi en í verksmiðjunni eru jú framleiddar vogir. Blanco er yfirmaðurinn og er í upphafi sögu að undirbúa starfsfólkið undir heimsókn frá nefnd sem veitir fyrirtækjum virt verðlaun. Starfsmanninum Jose er sagt upp um svipað leyti og nefndin boðar komu sína og þá upphefst vandræðagangur meðal stjórnenda sem snýr að því að bæla niður mótmælaaðgerðir hans gegn uppsögninni.

Javier Bardem fer á kostum.

Heldur myndinni uppi á köflum

Javier Bardem heldur uppi myndinni á köflum sem sjálfsörugga skítseiðið og kvennaljóminn Blanco, og áhorfandinn dáleiðist yfir skrifstofulegri moppuhárgreiðslunni ofan á siðblindu heilabúi persónunnar með aðdáun og hryllingi.

Grátbrosleg á köflum

El Buen Patrón var framlag Spánverja til Óskarsverðlaunanna í ár. Það þjónar myndinni ekki að vera uppsett eða markaðssett sem gamanmynd, þó að hún geti verið grátbrosleg á köflum. Senurnar sem settar eru upp sem grínsenur eru slappasti hlekkurinn í annars þokkalegri keðju. Bestu sprettirnir eru hægur kómitragískur bruni sem fá áhorfandann til að engjast um af óþægindum.

NIÐURSTAÐA: Sagan rassskellir samfélagið og á hápunktinum býður hún upp á sterk stef um kynjadýnamík og neyslu á samskiptum, viðskiptum með fólk og skrifstofupólitík á sama tíma og leiðarstefið er nánast hallærislega augljós líking um vogir og réttlæti.

Nína Richter

Umfjöllunin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Millifyrirsagnir eru frá Kvikmyndir.is