Vond norn og fylgjendur hennar

Í stuttu máli er nýja útgáfan af „Suspiria“ ágætlega heppnuð en frekar torskilin og alltof löng. 

Þrjár nornir ráða lögum og lofum. Þær eru einskonar mæður alls sem er illt og áhrifa þeirra gætir víða og sýkja þær umheiminn af græðgi og illgirni í alls kyns myndum. Mater Tenebrarum (Móðir myrkursins) er búsett í New York í Bandaríkjunum, Mater Lachrymarum (Móðir táranna) hefur aðsetur í Róm og Mater Suspiriorum (Móðir andvarpa) er að finna í Freiburgh í Þýskalandi. Ítalski hryllingsmyndaleikstjórinn Dario Argento og leikkonan Daria Nicolodi suðu saman handrit um þessar þrjár vondu mæður og Argento leysti úr læðingi þríleik um þessa óvætti á árunum 1977 (“Suspiria”), 1980 (“Inferno”) og 2007 (“Mother of Tears”).  Án efa sú besta var “Suspiria” en sú mynd trónir á toppi margra hryllingsmyndaunnenda og þykir gríðarlega vel heppnuð. Argento bjó til magnaða sjónræna upplifun og ásamt frábærri tónlist (frá hljómsveitinni Goblin) varð til ein áhrifamesta hrollvekja áttunda áratugarins og áhrifa hennar gætir enn þann dag í dag.

Sjónarspilið í þeirri mynd fékk að njóta sín til fulls en söguþráðurinn var ekki ýkja merkilegur þrátt fyrir góða grunnhugmynd. Í þessari nýju útfærslu á “Suspiria” (2018) er einblínt á Mater Suspiriorum en hún og fylgjendur hennar eru á bak við tjöldin í virtum dansskóla í Berlín í Þýskalandi. Það ber að hrósa ítalska leikstjóranum Luca Guadagnino fyrir að tækla endurgerðina á annan máta og gefa sögunni um nornina meira vægi og sýna meira frá því sem gerist innan veggja skólans.

Söguþráðurinn er í grunninn sá sami en ameríski dansarinn Susie Bannion (Dakota Johnson) kemur til Berlínar og þreytir inntökupróf í mikils metnum dansskóla í borginni. Um leið heillar hún Madame Blanc (Tilda Swinton) og fær að vera um kyrrt. Fljótlega verður henni ljóst að eitthvað undarlegt er á seyði í skólanum, nokkrir dansarar hljóta grimm örlög og ráðamenn skólans ætla Susie eitthvað meira en að vera bara dansari.

Frá byrjun er ljóst að starfsmenn skólans eru fylgjendur nornar og Susie er ekki bara leikmaður sem kemst á snoðir um starfsemina. Guadagnino er að pæla í öðrum hlutum en Argento og hann stendur við yfirlýsingar sínar um að “Suspiria” (2018) er ekki endurgerð heldur verk sem er innblásið af forveranum. Það eru ýmsar háfleygar pælingar í gangi hérna en engin náði almennilegri festu hjá rýni þar sem atburðarrásin er í senn torskilin og dularfull og handritið skilur afar mikið eftir í lausu lofti.

Guadagnino er klár leikstjóri og fer létt með að búa til drungalega stemningu og ákvörðun hans að láta myndina gerast í Berlín árið 1977 í miðri hringiðu voðaverka sem eiga rætur að rekja til seinni heimsstyrjaldarinnar gefur myndinni sitt eigið sérkenni. Litadýrðin sem einkenndi mynd Argento er ekki að finna hér heldur litlausan veruleika borgar mitt í tilvistarkreppu og á barmi tímabærra breytinga. Guadagnino er ekkert að spara viðbjóðinn heldur og kemur með nokkur atriði sem skáka forveranum í ógeðslegheitum og þótti upprunanlega “Suspiria” nokkuð svæsin á sínum tíma.

Myndin virkar þó frekar tilgerðarleg á köflum og ómarkviss. Hún skiptist í sex kafla og niðurlag en skiptin eru frekar óljós og sá grunur læðist að manni að Guadagnino hafi verið í vafa um hvernig ætti að slútta myndinni. Lokauppgjörið er sannarlega myndrænt, hrottalegt og blóði drifið og marga ramma verður erfitt að þurrka úr minninu en allt þetta skilur lítið eftir sig. Fljótlega er allt svo sett í stopp og niðurlagið ruglar enn frekar í manni og sendir áhorfandann heim í þungum þönkum.

Það er í raun ekkert sem réttlætir 152 mínútur af skjátíma og áhorfandinn finnur vel fyrir lengdinni. Það eru nokkur vel heppnuð atriði sem snúa að blóði drifnum dauðdögum, góð dansatriði og fínn leikur hjá Johnson og Swinton í rullum sem varla hefur verið einfalt að sökkva sér í.

Það þarf að pæla í þessari og vafalaust mun hún virka betur við annað áhorf. Það var raunin með upprunanlegu myndina og því bara við hæfi með nýju útgáfuna.