Spennutryllirinn Get Out vinsælust í Bandaríkjunum

Fyrsta myndin sem gamanleikarinn Jordan Peele leikstýrir, Get Out, er vinsælasta kvikmynd helgarinnar í Bandaríkjunum.

Samkvæmt áætluðum aðsóknartölum þá rakaði spennutryllirinn saman um 30,5 milljónum bandaríkjadala yfir helgina alla. Myndin, sem kostaði einungis 4,5 milljónir dala, hefur auk þess hlotið lofsamlega dóma gagnrýnenda.

Myndin fjallar um hinn þeldökka Chris, og kærustu hans Rose, sem er hvít, sem fara út á land til að hitta fjölskyldu Rose í fyrsta skipti. Þegar þangað er komið hegðar fjölskyldan sér einkennilega og allskonar furðulegir atburðir eiga sér stað.

The Lego Batman Movie þurfti, vegna frammistöðu Get Out, að sætta sig við annað sæti bandaríska aðsóknarlistans, en myndin bætti við sig 19 milljónum dala í aðgangseyri nú um  helgina í Bandaríkjunum, og er komin upp í 133 milljónir dala í heildartekjur eftir þriggja vikna sýningar. Myndin var einmitt vinsælasta myndin hér á Íslandi síðustu tvær helgar.

John Wick: Chapter Two situr í þriðja sæti eftir sýningar helgarinnar, og Matt Damon myndin The Great Wall varð fjórða aðsóknarmest, með 8,7 milljónir dala í tekjur.

Í fimmta sætinu situr svo hin erótíska Fifty Shades Darker, en hún hefur þénað meira en 100 milljónir dala í Bandaríkjunum frá frumsýningu.