Nýjasta Star Trek myndin, Star Trek Into Darkness, fór beint á topp bandaríska aðsóknarlistans um helgina, en myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum um helgina.
Tekjur myndarinnar er áætlaðar 84,1 milljón Bandaríkjadala fyrir alla helgina, auk þess sem myndin þénaði 40 milljónir dala til viðbótar, utan Bandaríkjanna.
Tekjur myndarinnar eru því komnar upp í 164,6 milljónir dala alls á heimsvísu, en inni í þeirri tölu eru 80,5 milljónir dala sem myndin hefur þénað alls utan Bandaríkjanna.
Star Trek var þó ekki vinsælasta myndin utan Bandaríkjanna um helgina, því The Great Gatsby fékk meiri aðsókn, og þénaði 42,1 milljón dala utan Bandaríkjanna, en eins og segir í The Hollywood Reporter þá naut sú mynd góðs af því að vera eina nýja myndin sem vitað var að myndi höfða sterkt til kvenna.
Aðrar myndir sem frumsýndar voru utan Bandaríkjanna voru til dæmis Fast & Furious 6, sem var einmitt forsýnd hér á Íslandi um helgina.
Fast and the Furious 6 var frumsýnd í Bretlandi og Írlandi og þénaði þar 13,8 milljónir dala, sem er besti árangur myndar frá Universal kvikmyndaverinu á frumsýningarhelgi í þessum löndum.
Margir sérfræðingar áttu von á að Star Trek Into Darkness myndi fara yfir 100 milljón dala markið um helgina í Bandaríkjunum, og slá þannig rækilega við fyrri Star Trek myndinni frá árinu 2009, en hún þénaði 79,2 milljónir dala á sinni frumsýningarhelgi. Samkvæmt frétt The Hollywood Reporter eru aðstandendur þó mjög ánægðir með árangur myndarinnar.
Star Trek Into Darkness kostaði 190 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu.
Hér fyrir neðan er listi 10 vinsælustu mynda í Bandaríkjunum um helgina:
1. Star Trek Into Darkness
2. Iron Man 3
3. The Great Gatsby
4. Pain & Gain
5. 42
6. The Croods
7. Tyler Perry Presents Peeples
8. Oblivion
9. Mud
10. The Big Wedding