Steinsteypa hjá Gibson og Vaughn

Stefna lögregluyfirvalda og lögregluofbeldi eru málefni sem koma upp reglulega í umræðunni í Bandaríkjunum, en þetta er einmitt viðfangsefni spennutryllisins Dragged Across Concrete, eða Dreginn eftir steinsteypunni, sem þeir Hacksaw Ridge leikstjórinn Mel Gibson og Hacksaw Ridge leikarinn Vince Vaughn munu leika í.

Bone Tomahawk leikstjórinn S. Craig Zahler, sem vann nýverið með Vaughn í myndinni Brawl In Cell Block 99, mun leikstýra myndinni og skrifa handrit.

Myndin segir frá tveimur lögregluþjónum, Gibson er sá gamalreyndi og Vaughn er yngri félagi hans, sem eru leystir frá störfum þegar myndband af ofbeldisfullum aðferðum þeirra, fer á flug á netinu og í sjónvarpi.

Nú eru góð ráð dýr, þeir orðnir tekjulausir, og ákveða því að reyna sig sem glæpamenn í undirheimunum. En þar bíður þeirra ýmislegt óvænt …

Vaughn hefur nú nýverið unnið að myndinni The Forgiven, en Gibson hefur verið við tökur á The Professor And The Madman.