Super 8 tryllir beint á toppinn

Vísindatryllirinn Super 8, sem kvikmyndir.is frumsýnd sl. föstudag í Kringlubíói, fór beint á toppinn á aðsóknarlistanum í Bandaríkjunum yfir helgina, með 35,5 milljónir Bandaríkjadala í tekjur.

Myndin, sem leikstýrt er af J.J. Abrams, gerist í litlum bæ í Ohio fylki í Bandaríkjunum, og segir frá því þegar nokkrir vinir ganga fram á lestarslys, þegar þeir eru í miðjum klíðum að búa til stuttmynd. Stuttu eftir slysið fara skrýtnir hlutir að gerast, og dýr og aðrir hlutir að hverfa með dularfullum hætti.

Super 8 ýtti X-men: First Class myndinni af toppnum, en sú mynd þénaði 24,1 milljón dala þessa helgina og endaði í öðru sæti. X-Men er forsaga hinna X-Men myndanna, og hefur nú þénað alls 98 milljónir dala.

The Hangover: Part ll lenti í þriðja sæti um helgina með 17,7 milljónir dala í tekjur, og er nú búin að hala inn 215,7 milljónir dala í Bandaríkjunum á aðeins þremur vikum, sem er harla gott, svo ekki sé meira sagt.

Sú mynd sem hefur hinsvegar verið tekjuhæst það sem af er ári eru sjóræningjamynd Johnny Depp, Pirates of the Carribbean: On Stranger Tides, en 887 milljónir dala hafa þar komið í kassann um heim allan, en myndin er enn að gera það gott, og þénaði 10,9 milljónir dala í Bandaríkjunum um helgina, og endaði í fimmta sæti aðsóknarlistans.

Auk Super 8 var ein önnur mynd frumsýnd um helgina, en það var myndin Judy Moody and the Not Bummer Summer sem endaði í sjöunda sæti með 6,1 milljón dali í tekjur.

Í fjórða sæti listans er teiknimyndin Kung Fu Panda 2 með 16,5 milljónir dala, og gamanmyndin Bridesmaids lenti í sjötta sæti með 10 milljónir dala.

Mynd Woody Allen, Midnight in Paris, og ofurhetjumyndin Thor, lentu síðan í áttunda og níunda sæti með 8,5 milljónir dala og 2,4 milljónir dala í innkomu. Fast Five lenti svo í tíunda sæti með 1,7 milljónir dala.