Súrrealískt segir Abrams

Vefsíðan Entertainment Online greip J.J. Abrams, leikstjóra bæði næstu Star Trek og Star Wars mynda, glóðvolgan í gær á rauða dreglinum fyrir framan Beverly Hilton hótelið í Los Angeles þar sem verið var að veita Producers Guild of America verðlaunin.

„Þetta er raunverulega alveg ótrúlegt,“ sagði Abrams,“ í stuttu samtali við blaðamanninn „Þetta er yfirmáta fjarstæðukennt ( súrrealískt).“

Eins og við sögðum frá í gær er Disney búið að staðfesta J.J. Abrams sem leikstjóra næstu Star Wars myndar, þeirrar sjöundu í röðinni.

Blaðamaður vefsíðunnar gat ekki stillt sig um að spyrja leikstjórann hvort von væri á gamla genginu úr fyrstu myndunum, Harrison Ford ( Han Solo ), Carrie Fisher ( Leia prinsessa ) og Mark Hamill ( Logi geimgengill) í nýju myndinni.

„Það er augljóslega allt of snemmt að fara ofaní smáatriði,“ sagði Abrams. „En ég er spenntur fyrir að byrja á verkefninu.“

Abrams fékk Norman Lear Achievement verðlaunin á Producers Guild of America verðlaunahátíðinni, og það var stjarnan hans úr sjónvarpsþáttunum Alias sem afhenti honum verðlaunin, Jennifer Garner. J.J. Abrams er höfundur Alias þáttanna.