Til stendur að endurræsa kvikmyndabálkinn The Mummy og er Tom Cruise sagður eiga í viðræðum um að leika aðalhlutverkið.
Kvikmyndaverið Universal Pictures stendur á bak við verkefnið. Myndinni er ætlað að vera hluti af nýjum skrímslaheimi fyrirtækisins því það ætlar einnig að blása nýju lífi í fleiri óvætti úr smiðju sinni, þar á meðal The Wolfman, Frankenstein-skrímslið og Drakúla.
Leikstjóri The Mummy verður Alex Kurtzman og handritshöfundur Jon Spaihts (Prometheus, Doctor Strange).
Myndin á að gerast í nútímanum og þar gæti kvenkyns múmía komið við sögu.
Þrjár múmíumyndir komu út á árunum 1999 til 2008 með Brendan Fraser í aðalhlutverki. Fjórar hliðarmyndir til viðbótar um Scorpion-konunginn hafa einnig komið út á undanförnum árum.