Tökur á Thor: Love and Thunder byrja eftir áramót

Ef allt fer samkvæmt áætlun, þá munu tökur á næstu Thor ofurhetjukvikmynd, Thor: Love and Thunder, hefjast skömmu eftir áramót. Natalie Portman, aðalleikona kvikmyndarinnar, sagði í nýlegu samtali við viðskiptafélaga sinn, tenniskonuna Serenu Williams, að hún hefði notað tímann í sóttkví til að bæta á sig vöðvum, og borða kolvetni af kappi, til að búa sig undir tökurnar.

„Mjög spennt,“ sagði Portman við Serenu, en þær eru báðar á meðal eigenda nýs knattspyrnuliðs í bandarísku kvennadeildinni, Angel City Football Club.

„Við munum taka myndina upp í Ástralíu í byrjun næsta árs. „

Portman á tali við þrumuguðinn.

Portman mun á ný verða í hlutverki Jane Foster, persónu sem hún lék bæði í Thor og Thor: The Dark World.

Lítið er enn vitað um söguþráð kvikmyndarinnar, annað en að leikstjórinn, Taika Waititi, hefur sagt að hún verði „klikkuð“ og „rómantísk“.

„Ég held hún verði mjög góð,“ sagði Waititi. „Við erum búin, að vera að föndra við handritið í meira en heilt ár. Það er svo klikkað og einnig mjög rómantískt. Ég er mjög hrifinn af rómantík þessa dagana. Ég vil bara gera rómans. Ég vil gera eitthvað sem ég hef aldrei gert áður og aldrei haft sérstakan áhuga á áður. Ég vil gera atlögu að því.“

Stefnt er að frumsýningu Thor: Love and Thunder 11. febrúar, 2022.