Transformers rústa miðasölunni

Geimvélmennin í Transformers: Revenge of the Fallen rústuðu hreinlega allri samkeppni í bíómiðasölunni í Bandaríkjunum nú um helgina. Myndin var sú langvinsælasta þar í landi í vikunni með sölu á bíómiðum upp á 200 milljónir Bandaríkjadala, eða um 26 milljarða íslenskra króna, síðan hún var frumsýnd sl. miðvikudag. AðeinsThe Dark Knight hefur náð betri árangri í miðasölunni, en hún skilaði 203,8 m.$ í kassann á jafnmörgum dögum í fyrra.

Hinsvegar setti Transformers met í miðasölu yfir eina helgi með 112 milljónir í Bandaríkjunum einum, og skákaði þar með fyrra meti X-Men Origins: Wolverine í maí sl. þegar hún skilaði 85,1 m.$ í kassann frumsýningarhelgina.

Transformers: Revenge of the Fallen skilaði 60,6 m.$ á frumsýningardaginn sem er það næst mesta í sögunni, en aðeins The Dark Knight átti stærri frumsýningardag í fyrra, með 67,2 m.$ sölu á frumsýningardag.