Hér fyrir neðan bjóðum við upp á tvöfaldan skammt af Bíóbæ, þættinum sem frumsýndur er í miðri viku á sjónvarpsstöðinni Hringbraut þar sem spjallað er um ýmislegt er tengist bíómyndum og jafnan farið yfir það helsta sem kemur nýtt í bíó í hverri viku.
Í fyrri þættinum er rætt um „nýju“ Múmínálfamyndina – en þáttastjórnendur komust að því við gerð þáttar að hún er endurútgáfa af gömlum þáttum frá áttunda áratug síðustu aldar. „En krakkarnir hafa nú gaman af þessu samt, eða hvað?“
Ný Marvel mynd
Svo er komin ný Marvel mynd! Black Panther: Wakanda Forever. Hún er gerð eftir ótímabært andlát leikarans Chadwick Boseman sem fór með hlutverk Black Panther í seinustu mynd. Hvað gerir Disney þá? Einnig reynir Gunnar Anton í þættinum að útskýra töfraheim Marvel fyrir Árna Gesti við misgóðar undirtektir.
Gómsæt kvikmynd
Í seinni þættinum er talað um gómsætu kvikmyndina The Menu með Ralph Fiennes (framburður óráðinn). Einnig ræða þáttastjórnendur um She Said sem fjallar um konurnar sem náðu að knésetja Harvey Weinstein á sínum tíma og settu í gang MeToo byltinguna.
Kvikmyndir til að horfa á í flugvél
En einnig, í tilefni af útlandaferð Árna Gests fastagests, þá eru ræddar myndir sem tilvalið er að horfa á í flugvél. Hvað með Air Force One? Má sjá flugslys í flugvél?