Uppvakningafaraldur hefst 30. júlí

Margir hafa beðið eftir spennuhrollvekjunni Peninsula með gífurlegri eftirvæntingu en áætlað er að myndin rati í íslensk kvikmyndahús þann 30. júlí.

Peninsula er leikstýrt af hinum marglofaða Yeon Sang-ho og er um að ræða sjálfstætt framhald spennutryllisins Train to Busan, frá sama leikstjóra.

Myndin er á meðal tekjuhæstu mynda Suður-Kóreu frá upphafi. Hún hlaut frábærar viðtökur frá bæði áhorfendum og gagnrýnendum víða um heim og hefur frá útgáfu verið talin meðal betri uppvakningamynda síðari ára.

Fjögur ár eru liðin síðan ógnvekjandi uppvakningafaraldur hófst í Suður-Kóreu sem hefur að mestu útrýmt íbúum landsins. Hópur sérsveitarmanna leggur í krefjandi sendiför til stórhættulegra óbyggða Kóreuskaga þar sem uppvakningar leynast við hvert fótmál. Sérsveitarhópinn leiðir Jung-seok, sem er hættusvæðunum vel kunnugur, en í miðri för mætir hann ýmsum eftirlifendum í slæmu ásigkomulagi. Verður þá tímaspursmál hvort hópurinn nái að standa saman gegn sameiginlegu ógninni eða illt verði gert verra.