Verður Eddie Murphy kynnir á Óskarnum?

Deadline vefsíðan segir frá því í dag að Eddie Murphy sé í viðræðum um að vera kynnir á næstu Óskarsverðlaunahátíð. Samkvæmt fréttunum, sem eru eftir heimildum Deadline, þá eru viðræður mjög stutt á veg komnar.

Framleiðandi Óskarsverðlaunahátíðinanar, Brett Ratner, mun núna á þriðjudag, samkvæmt fréttinni, tilkynna kvikmyndaakademínunni hvern hann vill fá sem kynni á næstu hátíð. Deadline hefur heimildir fyrir því að hann ætli sér að nefna nafn Eddie Murphy.

Heimildir Deadline segja að ýmsir hafi sett sig í sambandi við Don Mischer, hinn framleiðanda Óskarsverðlaunahátíðarinnar, og sýnt áhuga á starfinu, en samkvæmt heimildum er aðeins einn maður sem búið er að ræða við, sem er Eddie Murphy.

Það er óvíst hvort að umboðsskrifstofa Murphy telji að þetta sé góð hugmynd, en sumir hafa farið flatt á kynnastarfinu. Leikarinn, sem hefur kannski ekki skinið mjög skært síðustu ár, leikur í mynd sem verður frumsýnd 4. nóvember, sem gæti komið honum aftur á kortið, en það er myndin Tower Heist, spennu- gamanmynd með Ben Stiller en Brett Ratner leikstýrir. Murphy leikur einnig aðalhlutverkið í myndinni A Thousand Words sem frumsýnd verður 12. janúar. Murphy verður því að stíga varlega til jarðar, ef að ferillinn er að komast á flug aftur hjá honum.

Eddie sem var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik í aukahlutverki í Dreamgirls árið 2006, en vann ekki, er sagður elska Óskarsverðlaunin. „Það veit enginn meira um kvikmyndir en Eddie. Ekki Brett. Ekki einu sinni Quentin Tarantino. Eddie getur farið með endalausar línur úr kvikmyndum orð fyrir orð,“ segir maður sem Deadline vísar til.

Þessi áhugi gæti nýst honum í kynnastarfið, auk þess sem hann hefur reynslu úr Saturday Night Live gamanþáttunum, og hefur starfað sem uppistandari svo eitthvað sé nefnt.