Vinsælast á Netflix á Íslandi í dag – Löggur og bófar

Notkun Íslendinga á streymisveitunni Netflix hefur aukist stöðugt á undanförnum árum og virðist vera nóg af framboði efnis sem hentar einum og hverjum. Nýverið tók veitan upp á því að birta lista yfir tíu vinsælustu titla í hverju landi, en þar falla kvikmyndir, sjónvarpsþættir, heimildarmyndir og allt tilheyrandi undir sama hatt.

Listinn uppfærist daglega en að svo stöddu samanstendur hann af 10 eftirfarandi titlum sem eru heitastir á Íslandi í dag:

1. Spenser Confidential

Mark Wahlberg og Winston Duke fara með aðalhlutverkin í þessari hasargamanmynd frá leikstjóranum Peter Berg, en þeir Wahlberg hafa áður unnið saman að myndunum Lone Survivor, Deepwater Horizon, Patriots Day og Mile 22. Spenser Confidential er lauslega byggð á bókinni Wonderland eftir Ace Atkins og verkum Roberts B. Parker.

2. Love is Blind

Raunveruleikaþátturinn Love is Blind er gífurlega umtalaður þessa dagana. Áhorfendur hafa víða deilt um gæði þessarar seríu en grunnhugmyndin gengur út á mismunandi pör sem kynnast í sitthvoru, lokaða herberginu og ná tengingu áður en hulunni er svipt og þá tekur trúlofun við ásamt næstu skrefum í lífi þeirra para. Sérstakur endurfundaþáttur var nýlega sýndur og eru vinsældir þáttana ótvíræðir.

3. Paradise PD

Teiknimyndaþættir handa fullorðnum um glataðar löggur og groddaralegan fíflagang þeirra. Á föstudaginn gaf Netflix út aðra seríu og skaut það að sjálfsögðu seríunni rakleiðis á listann, enda dúndurhressir þættir.

4. RuPaul’s Drag Race

Dragkeppni RuPaul hefur stöðugt farið vaxandi í vinsældum á íslenskum markaði, enda mikið skemmtanagildi að finna í leitinni að næstu súperstjörnu dragheimsins þar sem keppendur fá nýjar og skrautlegar þrautir í hverri viku. Seríurnar eru núna orðnar ellefu í heildina ásamt þónokkrum „spinoff“ seríum sem hafa glatt aðdáendur títt.

5. The Trials of Gabriel Fernandez

Heimildarþáttaröð um morðið á hinum átta ára Gabriel Fernandez. Serían hefur hlotið góða dóma og þykir nálgunin á erfiðu umfjöllunarefni vera ákaflega vönduð og grípandi. Þættirnir hófu göngu sína í vikunni og voru ekki lengi að smeygja sér inn á vinsældarlistann.

6. Altered Carbon

https://www.youtube.com/watch?v=_MzbLQBeR9Y

Á tímabili voru „sci-fi“ þættirnir Altered Carbon þeir dýrustu sem Netflix hafði framleitt en önnur sería hóf göngu sína í síðustu viku. Framtíðarheimur þáttanna þykir einstaklega vel skapaður og eru þeir byggðir á samnefndri bók eftir Richard K. Morgan. Grunnhugmynd þessa efnis gengur út á það að flytja meðvitund einstaklings á milli líkama, en leikarinn Anthony Mackie, sem er meðal annars þekktur sem Falcon úr Marvel-heiminum, tekur upp þráðinn sem nýjasta ermi Takahashi Kovacs.

7. Riverdale

Unglingaþættirnir Riverdale hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár og eru seríurnar núna orðnar fjórar (og búið er að gefa grænt ljós á þá fimmtu). Hefur þáttunum verið líkt við eins konar unglingaútgáfu af Twin Peaks og Twilight Zone en þættirnir sækja sinn innblástur í hinar víðfrægu teiknimyndasögur um Archie Andrews og meðfylgjandi persónur í lífi hans.

8. I Am Not Okay with This

https://www.youtube.com/watch?v=M9vp9lhZiqU

Þessir glænýju þættir eru byggðir á teiknimyndasögu eftir Charles Forsman (The End of the F***ing World) og segja sögu ungrar stúlku en á erfiðum tímum uppgötvar að hún hefur einstaka hæfileika. Þá flækist fjölskyldu- og félagslífið töluvert meira, eins og slíkt á þessum aldri sé ekki nógu erfitt fyrir.

9. Peaky Blinders

Hinir stórvinsælu sjónvarpsþættir um samnefnt glæpagengi frá borginni Birmingham hafa notið mikilla vinsælda hér á landi. Aðalsprauturnar í genginu eru Shelby-bræður og er Tommy Shelby þeirra fremstur, leikinn af írska leikaranum Cillian Murphy. Seríurnar eru nú orðnar fimm talsins og er ljóst að áhugi landans á þessu gengi hefur lítið dvínað, frekar en gæði þáttanna.

10. Castlevania

Þriðja þáttaröð Castlevania hófst í vikunni en fyrir þau sem ekki vita eru teiknimyndaþættirnir byggðir á samnefnri leikjaseríu sem á rætur sínar að rekja til NES leikjatölvunnar frá Nintendo. Segir þarna frá söguhetjunni Trevor Belmont og baráttu hans við hinu ýmsu kvikindi, þar á meðal fljúgandi höfuð, beinagrindur og þekktar ófreskjur á borð við Frankenstein og Drakúla.