Vinsælir asnakjálkar

Það hlaut að koma að því á endanum, en Spider-Man: No Way Home er nú komin af toppi íslenska bíóaðsóknarlistans. Þar hefur kvikmyndin setið í sjö vikur samfleytt og halað inn næstum því eitt hundrað milljónir króna.

Myndin sem á heiðurinn af því að hafa sigrast á Köngulóarmanninum er Jackass Forever, myndin um asnakjálkana sem gera hvert áhættuatriðið á fætur öðru og hlægja eins og hross að öllu saman.

Hin myndin sem var frumsýnd um síðustu helgi, hamfara-stórmyndin Moonfall, þar sem sjálfur máninn hrapar á Jörðina, náði einungis fjórða sæti listans, en gestir voru 707 talsins á meðan rúmlega tvö þúsund og sex hundruð manns sáu Jackass.

Það verður spennandi að fylgjast með um næstu helgi hvort að kvikmyndirnar Marry Me, Death on the Nile og Uncharted, sem allar koma nýjar í bíó um helgina, nái að stríða nýju toppmyndinni.

Sjáðu aðsóknarlistann í heild sinni hér fyrir neðan.