300 vinsælli en Jesú

Miðað við aðsókn gærkvöldsins ( fimmtudagskvöld ) í Bandarískum bíóhúsum, þá virðist þrívíddarspennumyndin 300 Rise of an Empire vera sú kvikmynd sem menn eru spenntastir fyrir þar í landi þessa helgina.  Talið er að myndin hafi rakað saman 3,3 milljónum Bandaríkjadala í gær, sem þýðir að hún gæti þénað 40 – 45 milljónir dala yfir alla helgina. Myndin var einnig frumsýnd í dag hér á Íslandi.

300: BATTLE OF ARTEMESIUM

300 Rise Of An Empire, sem byggð er á teiknimyndasögunni Xerxes eftir Frank Miller, var frumsýnd á 3.470 bíótjöldum, og þar af voru 3.100 með þrívíddarsýningar.

Myndin er söguleg bardagamynd skrifuð af Zach Snyder og Kurt Johnstad og er með Sullivan Stapleton og Eva Green í helstu hlutverkum.

Söguþráðurinn er þessi í stuttu máli: Eftir sigurinn á Leonidas í fyrri myndinni, 300, þá stefnir persneski herinn undir stjórn Xerxes í átt að stærstu grísku borgríkjunum. Lýðræðisborgin Aþena, verður fyrst á vegi hers Xerxes, en hún býr yfir góðum sjóher, undir stjórn hershöfðingjans Themistocles. Themistocles neyðist til að gera samkomulag við andstæðinga sína í borgríkinu Sparta, en styrkur þess liggur í vel þjálfuðum her. En Xerxes býr enn yfir ofurefli liðs, bæði á sjó og landi.

Fyrri 300 myndin sló í gegn fyrir sjö árum síðan, og þénaði 70,8 milljónir dala á sinni frumsýningarhelgi, og endaði með að þéna 456 milljónir dala samtals í sýningum um allan heim.

Aðrar myndir sem líklegt er að gangi vel í Bandaríkjunum nú um helgina eru Non-Stop og Mr.-Peabody-And-Sherman, en þær eru báðar komnar í sýningar hér á landi einnig.

Þá er Jesúmyndin Son of God einnig nokkuð vinsæl á sinni annarri viku í sýningum.