Íslenskt hefur verið ríkjandi í bíóhúsum borgarinnar að undanförnu. 2.897 gestir sáu Ljósvíkinga í kvikmyndahúsum í vikunni, en alls hafa 10.046 séð hana eftir fjórðu helgi. Enn trónir þessi kvikmynd Snævars Sölva Sölvasonar og félaga í toppsætinu og er óhætt að segja að myndin hafi verið að spyrjast vel út. Áhorfendur hafa margir hverjir verið hæstánægðir og gagnrýnendur ekki síður.
Í umfjöllun Morgunblaðsins um Ljósvíkinga segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir:
„Handritshöfundarnir, Snævar Sölvason og Veiga Grétarsdóttir, eiga einnig mikið hrós skilið fyrir það hvernig þau skrifa atriðin sem endurspegla fáfræði og fordóma Hjalta. Í þeim erfiðu atriðum hefði verið auðvelt að sökkva sér í dramatíkina en þau eru fyndin og áhorfendum leyft að hlæja að Hjalta. Þrátt fyrir að myndin taki sig ekki of alvarlega tekst henni um leið að vekja athygli á málefnum trans fólks á mjög fallegan og mannlegan hátt. Þá skiptir líka máli hverjir fá að segja sögu trans kvenna, en bæði aðalleikkonan Arna Magnea Danks og annar handritshöfundanna Veiga Grétarsdóttir eru trans konur.“
Kolbeinn Rastrick á Rás 2 segir myndina meðal hugljúfa og fyndna, en í umfjöllun Lestarinnar mælir hann: „Það er smábæjarbragur yfir myndinni sem fylgir mikill sjarmi og er ljóst að Snævari er annt um sveitarfélagið og það fólk sem býr þar. Það hefði verið mjög auðvelt, sérstaklega fyrir leikstjóra af mölinni, að mála smábæinn einungis sem uppfullan af fordómum. Þess í stað verður til mikil samstaða og samhugur hjá bæjarbúum um að koma vel fram við Birnu, enda er kominn tími til að tilvist trans fólks sé ekki bara sýnd sem eilíf sorg. Í samhengi bæjar þar sem að allir þekkjast verður svo bersýnilegt hvað það ætti ekki að vera vandamál að koma fram við fólk af virðingu.“
RIFF og rótbotar
Í öðru sæti aðsóknarlistans er Transformers One á sinni annarri viku með tæplega fjögur þúsund gesti frá frumsýningu. Myndin hefur hlotið merkilega frábæra dóma og virðist það vera álit allflestra að þetta sé besta myndin í Transformers seríunni frá því að bíómyndin frá 1986 var og hét.
Sjá einnig: Þetta eru leikraddirnar og persónurnar í Transformers One
Nóg hefur annars verið kvikmyndaúrvalið þessa dagana enda hefur Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (e. RIFF) verið í fullum gangi. Opnunarmynd hátíðarinnar, Elskling, lenti í sjöunda sæti aðsóknarlistans með 219 gesti. Þá var einnig á dögunum frumsýndur spennutryllirinn Never Let Go en hann fór í níunda sæti aðsóknarlistans með tæplega 400 hundruð gesti. Þess má geta að það kostar meira inn á íslenskar kvikmyndir en erlendar.
Aðsóknarlista helgarinnar má sjá í heild sinni hér að neðan: