Á döfinni hjá Pixar

Snillingarnir hjá Pixar/Disney, sem fært hafa okkur snilld eins og Toy Story , Toy Story 2 og A Bug’s Life eru með ýmislegt á döfinni hjá sér. Það kemur reyndar engin mynd út frá þeim á því herrans ári 2002, en árið 2003 þá kemur Finding Nemo. Henni er leikstýrt af Andrew Stanton en hann leikstýrði einmitt Bugs Life. Í henni má heyra raddir Ellen DeGeneres , Willem Dafoe og Geoffrey Rush og fylgjumst við með ævintýrum ungs fisks sem verður viðskila við föður sinn.

Árið 2004 kemur síðan The Incredibles. Henni er leikstýrt af Brad Bird, sem færði okkur hina snilldargóðu The Iron Giant. Hún fjallar um fjölskyldu eina þar sem allir eru með einhverja ofurkrafta, en þrátt fyrir það reyna þau að lifa eðlilegu lífi.

Árið 2005 kemur síðan myndin Cars, í leikstjórn John Lasseter. Lasseter er líklega besti leikstjórinn í teiknimyndabransanum í dag, að Hayao Miyazaki ( Princess Mononoke ) undanskildum. Cars fjallar um hóp bíla sem fara í ferðalag eftir frægum vegi og lenda í ýmsum ævintýrum á leiðinni.