Aldinn kúreki í sendiferð og þrjár sögur í frönsku dagblaði

Tvær áhugaverðar kvikmyndir koma í bíó í þessari viku eftir tvo fantagóða og margverðlaunaða gæðaleikstjóra. Annars vegar er það nýjasta mynd Clint Eastwood, þar sem hann fer sjálfur með aðalhlutverkið, eins og svo oft áður, og hinsvegar er það ný mynd eftir Wes Anderson, sem er í miklum metum hjá mörgum bíóáhugamanninum, rétt eins og Eastwood.

Mynd hins 91 árs gamla Eastwood heitir Cry Macho og er fyrsti vestrinn sem þessi goðsagnakennda kempa leikstýrir og leikur aðalhlutverk í síðan hann gerði hina eftirminnilegu Óskarsmynd Unforgiven árið 1992.

Mike Milo ræðir málin.

Cry Macho segir frá afdönkuðum fyrrum kúreka og ródeóstjörnu, Mike Milo, sem er sendur í ferð suður yfir landamæri Bandaríkjanna til Mexíkó að ná í ungan dreng, Rafo, sem hefur verið látinn afskiptalaus af áfengissjúkri móður sinni sem tilheyrir glæpagengi.

Ástarbréf til blaðamanna

Mynd Wes Anderson, The French Dispatch, er af nokkuð öðru tagi, en myndin er kynnt sem ástarbréf til blaðamanna sem gerist í útibúi bandarísks dagblaðs í skáldaðri franskri borg á tuttugustu öldinni. Í myndinni eru sagðar þrjár sögur sem birtar voru í lokaútgáfu tímaritsins The French Dispatch.

Söguþráðurinn er eftirfarandi: Arthur Howitzer Jr., ritstjóri dagblaðsins The French Dispatch, fær hjartaáfall og deyr. Samkvæmt erfðaskrá hans skal umsvifalaust hætta útgáfu dagblaðsins, eftir að búið er að gefa út eitt loka tölublað, en í því eru þrjár greinar úr eldri tölublöðum blaðsins endurútgefnar, ásamt minningargrein um Howitzer.

Fjöldi þekktra leikara fer með hlutverk í mynd Wes Anderson.

Fjöldi þekktra leikara kemur fram í myndinni, þar á meðal: Benicio del Toro, Adrien Brody, Tilda Swinton, Léa Seydoux, Frances McDormand, Timothée Chalamet, Lyna Khoudri, Jeffrey Wright, Mathieu Amalric, Stephen Park, Bill Murray og Owen Wilson.

Úr einni sögunni í The French Dispatch.