Arftaki Schwarzenegger fundinn

Leitinni að nýjum Tortímanda, til að taka við hlutverkinu sem Arnold Schwarzenegger fór með svo eftirminnilega í nokkrum myndum, er lokið. Hinn nýi tortímandi, eða Terminator, er Gabriel Luna,  best þekktur fyrir leik sinn í hlutverki Robie Reyes, öðru nafni Ghost Rider, í Marvel ofurhetjusjónvarpsþáttunum Agents of S.H.I.E.L.D. Einnig er hann þekktur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðinni Matador. Þá hefur hann leikið í kvikmyndum eins og Freeheld og Transpecos.

Endurræsing Terminator seríunnar er runnin undan rifjum eiganda Skydance, David Ellison, ásamt leikstjóra upphaflegu myndarinnar, James Cameron, en á næsta ári, fær hann til baka stóran hluta höfundarréttar síns frá fyrstu myndinni 1984.

Leikstjóri myndarinnar verður að öllum líkindum Deadpool leikstjórinn Tim Miller.

Aðrir helstu leikarar eru Blade Runner 2049 leikkonan Mackenzie Davis, Diego Boneta og gamlir kunningjar úr fyrri myndunum, sjálfur Arnold Schwarzenegger og Linda Hamilton. David Goyer skrifar handrit.

Stefnt er að frumsýningu 22. nóvember 2019.