Avengers: Infinity War sú lengsta hingað til

Öllu verður tjaldað til í ofurhetjuheimum þegar kvikmyndin Avengers: Infinity War verður frumsýnd þann 27. apríl nk., en þá munu allar Avengers hetjurnar leiða saman hesta sína í sögulegri orrustu við hættulegasta óvin allra tíma, Thanos, sem hyggst eyða hálfum alheiminum.

Margir velta nú fyrir sér hversu langan tíma taki að segja þessa sögu á hvíta tjaldinu, enda að mörgu að huga þegar svona margar hetjur koma saman.  Góðu fréttirnar eru þær, að því er segir á Ubergizom.com, að um langa mynd verður að ræða, og í raun lengstu Marvel ofurhetjumynd til þessa.

Vísar vefsíðan til vefjarins Fandango, en þar er lengdin sögð verða 156 mínútur, eða 2 klukkustundir og 36 mínútur.

Lengsta Marvel myndin hingað til er Captain America: Civil War, en hún var hálfgerð Avengers mynd þar sem ýmsar þekktar ofurhetjur komu þar við sögu einnig.

Annar leikstjóra kvikmyndarinnar, Joe Russo, hefur sagt að líklega muni Thanos sjálfur eiga flestar af mínútunum 156. Þá sagði hann að Thor væri einnig fyrirferðamikill í myndinni. „Ég held að fólki finnist Thor koma sterkur inn í þessa mynd. Hann hefur hingað til ekki verið í forgrunni í Avengers myndum, en hann gegnir klárlega mjög mikilvægu hlutverki í þessari mynd.“