Bardem staðfestir Bond boðið

Fyrir mjög stuttu lýstum við frá því að Óskarsverðlaunaleikaranum Javier Bardem hafi mögulega verið boðið hlutverk í næstu mynd um njósnarann James Bond. Nú hefur leikarinn staðfest þetta í viðtali við LA Times, sem og hvers konar hlutverk honum var boðið.

„Ég myndi leika erkióvin Bond, já.“ sagði Bardem. „En það er ekki svo einfalt. Það er allt mjög flókið, ekkert það sem það sýnist.“

Samkvæmt LA Times hefur Bardem nú þegar hitt leikstjóra myndarinnar, Sam Mendes, og er mikill aðdáandi seríunnar. En samt sem áður vill hann ekki taka að sér hlutverkið fyrr en hann fær að lesa handritið í heild sinni.

– Bjarki Dagur