Búist við öldu áhorfenda í bíó um helgina

Talið er að Disney kvikmyndin um Litlu hafmeyjuna, The Little Mermaid, muni laða marga í bíó um Hvítasunnuhelgina, sem í Bandaríkjunum kallast Memorial Day Weekend.

Kvikmyndin var frumsýnd á Íslandi á miðvikudaginn síðasta.

Í frétt Variety segir að tekjur myndarinnar, sem var kostnaðarsöm í framleiðslu, gætu orðið 125 milljónir Bandaríkjadalir yfir helgina alla, eða 18 milljarðar íslenskra króna, að mánudeginum meðtöldum, en sýnt verður á 4.300 bíótjöldum í Bandaríkjunum um helgina.

Framleiðslukostnaður myndarinnar var 250 milljónir dala en samkvæmt Variety hækkaði kostnaðurinn umtalsvert vegna margvíslegra tafa í faraldrinum.

The Little Mermaid (2023)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.2
Rotten tomatoes einkunn 67%

Unga og ævintýragjarna hafmeyjan Ariel gerir samning við nornina Ursulu um skipti á fagurri söngrödd sinni fyrir mennska fótleggi svo hún geti kannað heiminn ofansjávar og stigið í vænginn við prinsinn Eric....

Samkvæmt þessum spám verður þetta fjórða kvikmyndin (og sú þriðja frá Disney) á árinu til að fara yfir 100 milljón dala markið á frumsýningarhelginni, en hinar eru The Super Mario Bros. Movie (146 milljónir dala ), Guardians of the Galaxy Vol. 3 (118 milljónir dala) og Ant-Man and the Wasp: Quantumania (106 milljónir dala).

Ein sú vinsælasta

Leikstjóri Litlu hafmeyjunnnar er Rob Marshall, en útlit er fyrir að myndin verði ein sú vinsælasta af leiknum endurgerðum Disney teiknimynda. Nú þegar hefur fyrirtækið endurgert með sama hætti teiknimyndirnar The Lion King, Beauty and the Beast og Aladdin, en allar myndirnar fóru yfir einn milljarð Bandaríkjadala í tekjur á heimsvísu. Þá eru ótaldar Mulan og Dumbo, sem voru ekki jafn tekjuháar.

Til samanburðar voru tekjur The Lion King frá 2019 191 milljón dalir á frumsýningarhelginni, Dumbo náði aðeins að raka saman 45 milljónum 2019 og Aladdin safnaði 91 milljón dala á fyrstu helginni. Beauty and the Beast frá 2017 og Jungle Book frá 2016 náðu í 174 milljónir og 103 milljónir dala á frumsýningarhelgum sínum.

Helstu leikarar í The Little Mermaid eru Halle Bailey sem Ariel, Melissa McCarthy sem Ursula og Jonah Hauer-King sem prinsinn.