Coen-bræðurnir vilja Timberlake

Undirbúningur fyrir næstu mynd Coen-bræðranna, Inside Llewyn Davis, hefur verið í hámarki undanfarið og samkvæmt nýjustu fregnum frá Hollywood, þá virðist sem að Justin Timberlake gæti bæst við myndarlegan leikarahóp myndarinnar. Myndin mun fjalla um afdrif tónlistarmannsins Llewyn Davis, leikinn af Oscar Isaac, á meðan hann upplifir tónlistarheim New York á sjöunda áratugnum. Timberlake myndi leika annan tónlistarmann að nafni Jim sem er einnig giftur karakter Carey Mulligan, en fyrir utan það er lítið sem ekkert vitað um hann.

Ef tekinn er í mál fyrrum tónlistarferill Timberlakes þá er skiljanlegt hvers vegna hans er óskað í myndina, en handritið er að vana skrifað af þeim bræðrum og munu þeir taka myndina upp án þess að fá einhvern fjárhagslegan stuðning frá stúdíói; tökur eiga að hefjast snemma á næsta ári. Titilkarakter myndarinnar er lauslega byggður á tónlistarmanninum Dave Van Ronk og veitti bók hans, The Mayor of MacDougal Street, bræðrunum mikinn innblástur. Í sumar ræddu bræðurnir við leikstjóran Noah Baumbach og töluðu þá m.a. um tilfinningu myndarinnar og hvernig þeir vonast til að taka hana upp. Til viðmiðunar báru þeir handritið sitt saman við mynd Baumbachs, Margot at the Wedding, og sögðu að þeir vildu helst samræður sem virtust eðlilegar og flæddu náttúrulega. Ásamt því búast þeir við að öll tónlist verði flutt á tökustað og það gæti jafnvel verið að myndin verði tekin upp í eldri stíl, t.d. með 16mm filmu.

Coen-bræðurnir hafa nánast aldrei klikkað og það er nógu auðvelt að verða spenntur fyrir nýrri mynd frá þeim, en upplýsingarnar um hana hingað til hafa aðeins aukið spennuna. Búist er við Inside Llewyn Davis árið 2013.