Dauðar löggur fá verkefni – Ný stikla

Dauðralöggudeildin, eða Rest In Peace Department, R.I.P.D, er nýjasta mynd Ryan Reynolds og Jeff Bridges. Myndin segir frá löggum sem fara til himna en eru umsvifalaust munstraðar í Dauðralöggudeildina þar efra.

Miðað við stikluna hér að neðan er þetta gamanmynd, einskonar blanda af Men in Black myndunum og sjónvarpsþáttunum Dead Like Me:

Leikstjóri myndarinnar er Robert Schwentke og í aðalhlutverki er Ryan Reynolds sem leikur lögregluþjón sem lætur lífið við skyldustörf en þegar hann kemur í himnaríki er hann ráðinn þar í deild lifandi-dauðra lögregluþjóna í hinni svokölluðu „Rest In Peace Department,“ sem eltir uppi hina ýmsu óvætti – sálir sem hafa sloppið úr prísund. Félagi hans er leikinn af Jeff Bridges.

Myndin kemur í bíó í Bandaríkjunum 19. júlí nk. en frumsýningardagur hér á landi hefur ekki verið ákveðinn.