Draugur sendir tölvupóst

Manni rennur óneitanlega kalt vatn milli skinns og hörunds við að sjá drauginn með hárið fyrir andlitinu, Samara, á ný, en hún er nú mætt aftur í nýrri stiklu úr hrollvekjunni Rings. Upphaflega átti að frumsýna myndina í október sl. en ákveðið var að fresta frumsýningunni til 3. febrúar, bæði í Bandaríkjunum og hér á Íslandi.

samara

Nýja stiklan er einskonar stytt útgáfa af löngu stiklunni, en í henni virðist Samara ekki einvörðungu geta átt samskipti með „hefðbundnum“ hætti, heldur getur hún líka sent tölvupóst.

Myndin gerist 13 árum eftir atburði fyrstu myndarinnar. Julia, sem Matilda Lutz leikur, hefur áhyggjur af kærasta sínum, Holt, sem Alex Roe leikur, sem heillast af drungalegri flökkusögu um dularfullt myndband, en sagt er að hver sá sem horfi á myndbandið deyi inna sjö daga frá áhorfinu.

Julia ákveður að fórna sjálfri sér til að bjarga kærastanum, en með því að gera það þá gerir hún hræðilega uppgötvun – það er „kvikmynd innan kvikmyndarinnar“ sem enginn hefur séð áður.

Sagt var á sínum tíma að ákveðið hefði verið að fresta frumsýningu Rings til að hún myndi ekki þurfa að keppa beint við aðra hryllingsmynd á hrekkjavökuhelginni síðustu, Ouija: Origin of Evil, en það var eina hrollvekjan sem frumsýnd var þá helgi í Bandaríkjunum.

Leikstjóri Rings er F. Javier Gutierrez. Aðrir helstu leikarar  eru The Big Bang Theory leikarinn Johnny Galecki og Vincent D’Onofrio.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: