Dumb and Dumber To verður gerð

Universal Pictures kvikmyndaverið hefur samið um dreifingu innanlands í Bandaríkjunum fyrir myndina Dumb And Dumber To, sem er framhald hinnar sígildu gamanmyndar Dumb and Dumber, en í þessari framhaldsmynd mæta aftur til leiks upprunalegu fávitarnir þeir Jim Carrey og Jeff Daniels. Leikstjórar verða einnig þeir sömu og gerðu fyrstu myndina, þeir Peter og Bobby Farrelly en þeir skrifa einnig handritið eftir uppkasti Sean Anders og John Morris.

Dumb&Dumber-Thumb Framleiðslufyrirtækið Red Granite, sem fjármagnar meðal annars nýju Scorsese myndina Wolf of Wall Street, mun fjármagna myndina, en kostnaðaráætlun hljóðar upp á 35 milljónir Bandaríkjadala samkvæmt Deadline kvikmyndavefnum.

Ekki er langt síðan Warner Bros hættu við gerð myndarinnar, eftir að hafa haft hana á borðinu hjá sér síðan í janúar sl.

Deadline segir að myndin muni verða bönnuð innan 13 ( PG 13 ) eins og fyrsta myndin, en í henni munu þeir Lloyd, sem leikinn er af Carrey, og Harry, sem leikinn er af Daniels, bregða sér út úr bænum á nýjan leik.

Samkvæmt vefsíðunni liggur á að hefja tökur sem allra fyrst þar sem Daniels er upptekinn við leik í HBO sjónvarpsseríunni The Newsroom og Carrey er bókaður í bankaræningjamynd ásamt Owen Wilson, sem Jared Hess leikstýrir.