Dune kemur í bíó í vikunni – Leikstjórinn vill að hennar sé notið í bíósal

Í þessari viku verður ein ný kvikmynd frumsýnd í bíóhúsum hér á landi. Þar er um að ræða vísindaskáldsöguna Dune í leikstjórn Denis Villeneuve, sem áður hefur gert stórmyndir eins og Arrival, Blade Runner og Sicario. Myndin verður frumsýnd á föstudaginn en á fimmtudaginn, eða daginn áður, býður kvikmyndir.is heppnum þátttakendum á síðunni á sérstaka forsýningu myndarinnar.

Leikstjórinn segist í samtali við kvikmyndaritið Variety vonast til að fólk muni horfa á Dune í bíósal.

„Við vitum að þetta eru erfiðir tímar fyrir alla. Öryggið er auðvitað aðal atriðið, en ef áhorfendur eru til í það þá hvet ég þá til að horfa á myndina á bíótjaldi,“ sagði Villeneuve á blaðamannafundi sem haldinn var á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum en myndin var sýnd á hátíðinni.

Líkamleg upplifun

Hann segir að allt verkefnið sé hugsað með IMAX risabíótæknina í huga. „Í draumum, hönnun, í upptökum og í allri umhugsun hefur IMAX verið í forgrunni,“ segir Villeneuve. „Þegar þú sérð myndina á stóra tjaldinu þá er það líkamleg upplifun. Við reyndum að hanna upplifunina þannig að hún myndi gagntaka fólk.“

Aðalleikarinn Timothée Chalamet, sem leikur Paul Atreides, sagðist hafa horft á frammistöðu Kyle MacLachlan í hlutverkinu í upprunalegu myndinni frá 1984 tveimur mánuðum áður en tökur á nýju myndinni hófust. Hann hafi samt reynt að gera sína eigin útgáfu af persónunni.

„Ég ber mikla virðingu fyrir leik Kyle og ég elska þessa útgáfu myndarinnar,“ sagði Chalamet.

Leikarinn, sem nú er að leika í mynd um súkkulaðiverksmiðjueigandann Willy Wonka á sínum yngri árum, sagði að það að leika í Dune hafi verið mesti heiður sem honum hefði hlotnast sem leikari. Þá sagðist hann vilja leika í framhaldi myndarinnar. „Ég vona að við getum gert aðra. Það væri algjör draumur.“

Byggir á 65 ára gamalli bók

Dune byggir á samnefndri bók sem Frank Herbert gaf út árið 1956 og framhaldssögum hans. Hún fjallar í stuttu máli um Paul Atreides, fjölskyldu hans og baráttu þeirra við Harkonnen-ættina um plánetuna Arrakis, sem einnig kallast Dune. Meðal leikara í myndinni eru þau Timothée Chalamet, Rebecca Ferguson, Oscar Isaac, Jason Momoa, Josh Brolin, Dave Bautista, Stellan Skarsgård, Zendaya og Javier Bardem.