Hræðir og tryllir áhorfendur á víxl

Nærri tuttugu árum eftir að Sam Raimi leikstýrði sinni fyrstu Marvel ofurhetjumynd, Spider-Man frá 2002, og 15 árum eftir að hann leikstýrði síðast ofurhetjumynd, sem var Spider-Man 3 árið 2007, þá er leikstjórinn nú mættur aftur í Marvel heima í myndinni Doctor Strange In the Multiverse of Madness, en myndin var frumsýnd hér á Íslandi fyrr í vikunni.

Vefútgáfa Forbes talar um að í myndinni, sem er tvær klukkustundir og sex mínútur að lengd, þá sé Rami oft upp á sitt besta, þar sem hann hræði og trylli áhorfendur á víxl, og láti þá gapa af undrun yfir glæsilegum tæknibrellum, litríkum búningum og æsilegum hasar. 


The Atlantic bendir á að Raimi hafi áður en hann byrjaði á Multiverse of Madness aðeins leikstýrt tveimur kvikmyndum á síðustu fimmtán árum sem valdið hafi ákveðnum áhyggjum hjá mörgum, sem hafi óttast að hann væri kannski dottinn úr formi. Hann hafi mögulega ekki verið besti valkostur til að leikstýra Doctor Strange 2, sem er 28. myndin í hinum sístækkandi Marvel heimi. 

Ber Raimi fagurt vitni

Blaðamaður Atlantic segir að það hafi þó ekki verið nein sérstök ástæða til að örvænta. Multiverse of Madness sé stútfull af öllu því sem ofurhetjuaðdáendur vilji sjá og upplifa og myndin hafi öll höfundareinkenni Raimis – hún beri honum fagurt vitni. 

The New York Times segir í sinni umfjöllun um myndina að Raimi sé einn af forvígismönnum ofurhetjumyndageirans á 21. öldinni ásamt því að vera hrollvekjumeistari, hafandi gert t.d. Evil Dead seríuna. Handbragð Raimis sjáist einmitt vel í atriðum í myndinni þar sem uppvakningar koma við sögu, galdrar og aðrar myrkar listir. 

Á vef blaðsins segir einnig að tæknibrellurnar standi slagsmálasenunum þónokkuð framar. 

Í umfjöllun BBC um myndina segir að það sé synd og skömm að önnur Doctor Strange myndin hafi ekki fengið að heita Doctor Stranger, en heitið; Doctor Strange In the Multiverse of Madness er þó samkvæmt BBC yndislega óvenjulegur og framsækinn  titilll á bíómynd, sem lofi spennu og miðnætursýninga skringilegheitum. Myndin standi algjörlega undir öllu þessu. 

Byrjar í brúðkaupi

Myndin byrjar þegar Stephen Strange, sem Benedict Cumberbath leikur, hinn frábæri taugaskurðlæknir sem nú er orðinn meistari dulrænna lista, fer í brúðkaup gamallar kærustu, Christine Palmer, sem Rachel McAdams leikur. Þar áttar hann sig á að ef hann hefði ekki verið svona fjandi merkilegur með sig, þá hefði hún kannski gifst honum á sínum tíma.

En skyndilega þarf hann að sinna áríðandi erindi; gríðarstór eineygður risakolkrabbi er að elta stúlku sem heitir America Chaves, leikin er af Xochitl Gomez, um stræti Manhattan. 

Einni bardagasenu síðar segir America Strange og vini hans Wong, sem Benedict Wong leikur, að hún komi úr öðrum alheimi. Í raun geti hún hoppað milli margra heima, og það sé ástæðan fyrir því að skrímslið hafi verið að elta hana.  Ófreskjan vilji stela kröftum hennar, til að það geti ekki aðeins stjórnað þessum raunveruleika heldur öllum raunveruleikum allsstaðar. 

Eina leiðin til að sigrast á þessu kvikindi er að finna magnaða galdrabók og Strange fær til liðs við sig töfrakonu sem getur aðstoðað, en það er engin önnur en Wanda Maximoff, sem Elizabeth Olsen leikur, úr Avengers hópnum. 

Þó margt sé einkennilegt í sögunni, þá gefur BBC myndinni góða dóma og segir að hún sé þrælgóð skemmtun.