Keanu Reeves mannætutryllir með plaköt og myndir

Ný persónuplaköt, og tvær nýjar ljósmyndir, eru komnar út fyrir myndina The Bad Batch, þar sem ýmsir kunnir leikarar fara með hlutverk, fólk eins og John Wick leikarinn Keanu Reeves, Justice League leikarinn Jason Momoa, Insurgent leikkonan Suki Waterhouse, og Dumb Dumber leikarinn Jim Carrey.

Kvikmyndin er eftir A Girl Walks Home Alone At Night leikstjórann Ana Lily Amirpour.

Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 23. þessa mánaðar og gerist í heimi eftir alheimsstríð, og er með ævintýra-mannætublæ.  Í eyðimörk í Texas eru nokkur úrhrök samfélagsins að reyna að lifa af sem best þau geta. Að ofan er Reeves í góðum gír, en fyrir neðan er massaður Momoa og einhent Suki Waterhouse.

Aðrir leikarar eru meðal annars Giovanni Ribisi, Yolonda Ross, Jayda Fink, Cory Roberts og Louie Lopez.

Arlen, sem Waterhouse leikur, er hent inn í eyðimörkina, sem er girt af frá hinum siðmenntaða heimi. Mannætur taka hana til fanga og hún þarf að gera hvað hún getur til að laga sig að þessu nýja lífi. Hún áttar sig fljótlega á því að það hvort þú ert góður eða vondur, fer algjörlega eftir því hverjum þú ert með þá og þá stundina.

Kíktu á plakötin hér fyrir neðan: