Keðjusagarmorðinginn heillar með Songz

Texas Chainsaw 3D varð óvænt í efsta sæti bandaríska aðsóknarlistans í bíó í Bandaríkjunum nú um helgina. Áhugann á myndinni segja menn að megi rekja að stórum hluta til tónlistarmannsins vinsæla Trey Songz sem leikur í myndinni, en þetta er fyrsta stóra kvikmyndahlutverk Songz.

 

Myndin sjálf er beint framhald af hinni upprunalegu og sögufrægu mynd frá árinu 1974, The Texas Chainsaw Massacre.

Django Unchained eftir Quentin Tarantino var önnur aðsóknarmesta myndin um helgina, og The Hobbit: An Unexpected Journey var þriðja vinsælust. Söngvamyndin Les Misérables, eða Vesalingarnir, fylgdi svo í humátt á eftir í fjórða sætinu.

Django Unchained og Les Misérables eru báðar búnar að þéna rúma 100 milljón dollara síðan þær voru frumsýndar.

Matt Damon og nýjasta mynd hans Promised Land rétt náði inn á topp 10, og er í tíunda sæti með 4,3 milljónir Bandaríkjadala í tekjur.

Árangur Texas Chainsaw 3D þýðir að um er að ræða aðra stærstu frumsýningarhelgi myndar í  Texas Chainsaw seríunni, en tekjur af sýningum myndarinnar um helgina eru áætlaðar um 23 milljónir Bandaríkjadala. Talið er að nær helmingur aðsóknarinnar hafi verið kvenkyns aðdáendur Songz, sem þustu í bíó til að sjá söngvarann í myndinni.

The Hobbit: An Unexpected Journey þurfti að gefa toppsætið eftir, en myndin hafði verið á toppi aðsóknarlistans frá því hún var frumsýnd fyrir þremur vikum síðan.

Myndin er búin að þéna 263,8 milljónir dala í Bandaríkjunum.

Sjáðu stikluna fyrir Texas Chainsaw 3D hér fyrir neðan:

Hér fyrir neðan er listi 10 aðsóknarmestu mynda helgarinnar og áætlaðar tekjur:

  1. Texas Chainsaw 3D, 23 milljónir dollara
  2. Django Unchained, 20,1 milljón dollara
  3. The Hobbit: An Unexpected Journey, 17,5 milljónir dollara
  4. Les Misérables, 16,1 milljón dollara.
  5. Parental Guidance, 10,1 milljón dollara
  6. Jack Reacher, 9,3 milljónir dollara
  7. This is 40, 8,6 milljónir dollara.
  8. Lincoln, 5,3 milljónir dollara
  9. The Guilt Trip, 4,5 milljónir dollara
  10. Promised Land, 4,3 milljónir dollara