Kvikmyndaleikarinn Michael Parks er látinn, 77 ára að aldri. Leikarinn átti að baki langan og farsælan feril í kvikmyndum og sjónvarpi, en er líklega best þekktur fyrir leik sinn í myndum Kevin Smith; Red State og Tusk.
Parks fæddist árið 1940 í Corona í Kaliforníu í Bandaríkjunum, þar sem hann vann verkamannastörf framan af, þar til hann fékk fyrsta tækifærið sem leikari í gamanþáttaröðinni The Real McCoys árið 1961. Þá lék hann í sjónvarpsþáttunum Then Came Bronson á árunum 1969-1970.
Eftir það lék hann stórt hlutverk í upprunalegu Twin Peaks sjónvarpsþáttunum, og kom við sögu í nokkrum myndum Quentin Tarantino, eins og til dæmis báðum Kill Bill myndunum, Grindhouse og From Dusk Till Dawn.
Þá lék hann hlutverk Jack Kirby í Óskarsverðlaunamyndinni Argo eftir Ben Affleck
Parks lætur eftir sig eiginkonuna Oriana og soninn James Parks, sem er einnig leikari.
Kevin Smith minnist leikarans með hlýju:
„Mér þykir leitt að tilkynna að Michael Parks er látinn. Michael var, og mun líklega alltaf verða, besti leikari sem ég hef þekkt … hann var, algjörlega, merkilegasti leikhúsmaður sem ég hef haft þá ánægju af að horfa á.“