Kvikmyndaleikarinn Elvis Presley

Fjörutíu ár eru liðin frá því að konungur rokksins, Elvis Presley, lést á heimili sínu í Graceland í borginni Memphis í Tennessee þann 16. ágúst árið 1977. Arfleifð Elvis í tónlistarheiminum er óumdeild en kvikmyndaferill hans hefur aldrei verið ýkja hátt skrifaður. Alls lék kóngurinn í 31 kvikmynd á árunum 1956-1969.

Það var einlægur draumur Elvis að vera leikari og honum bauðst tækifærið snemma en fyrsta mynd hans, „Love Me Tender“ (1956), gaf góð fyrirheit um hvað koma skyldi. Almennt er talið að myndirnar sem hann lék í áður en hann fór að sinna herþjónustu árið 1958 hafi verið vel heppnaðar en svo versnuðu þær eftir því sem þeim fjölgaði. Þær þróuðust í að verða frekar léttúðugar og kjánalegar og mestu máli skipti að dæla þeim út í massavís en formúlan var sú að myndin var vel sótt og meðfylgjandi plata seldist einnig vel. Það gekk vel í þó nokkurn tíma en á endanum var almenningur orðinn þreyttur á hve óaðgreinanlegar myndirnar voru og lögin þóttu ekki einu sinni það góð.

Til að minnast kvikmyndaferils kóngsins kemur smá umfjöllun um nokkrar af myndum hans.

„King Creole“ (1958)

Uppáhaldsmynd Elvis var „King Creole“ og það er sama á hvaða mælikvarða hún er metin út frá; þetta er einfaldlega frábær mynd. Hádramatísk saga byggð á skáldsögunni „A Stone for Danny Fisher“ eftir Harold Robbins og leikstýrð af Michael Curtiz („Casablanca“). Myndin segir frá hinum 19 ára gamla Danny (Presley) sem leiðist út í þjófnað til að útvega pening handa fjölskyldu sinni sem berst í bökkum í New Orleans. Bíræfinn eigandi næturklúbbs, Maxie Fields (Walter Matthau), fær hann til að syngja þar og slær Danny í gegn sem söngvari. Hann kynnist viðhaldi Maxie og fellur fyrir henni og til átaka kemur á milli þeirra tveggja áður en yfir lýkur.

„King Creole“ er mjög dimm mynd og alvarleg og Elvis sýnir frábæran leik í krefjandi hlutverki. Hér er ekkert sykurhúðað og myrkur veruleiki undirheimanna kemst vel til skila í afar fagmannlega unninni mynd sem skartar einnig góðum meðleikurum, stemningsríkri svarthvítri kvikmyndatöku og frábærri tónlist með kónginum á hátindi frægðar sinnar. Lög eins og titillagið, „Hard Headed Woman“ og „As Long As I Have You“ eru klassísk lög sem aðeins betrumbæta þegar frábæra mynd.

„G.I. Blues“ / „Blue Hawaii“ (1960 / 1961)

Elvis hafði sýnt án nokkurs vafa að hann hafði fullt erindi sem alvarlegur leikari með frábærum frammistöðum í „Jailhouse Rock“ (1957) og „King Creole“ en fyrsta mynd hans eftir að herþjónustu lauk var „G.I. Blues“ og gaf hún mikil fyrirheit um hvað koma skyldi.

Það er erfitt að hugsa illa til hennar þar sem hún er svo skemmtileg og lögin eru frábær. Sagan vísar skemmtilega í raunverulega upplifun Elvis í hernum en í titillaginu syngur hann; „We‘d like to be heroes but all that we do here is march“ en kóngurinn var laus við alvarleg átök meðan á veru hans þar stóð. Lögin í „G.I. Blues“ eru mörg hver orðin klassísk og hæst ber að nefna „Wooden Heart“ og yfir það heila er hún mjög vel heppnuð létt grínmynd sem skilur alla eftir í góðu skapi.

Hafi verið einhver vafi um hvort léttar grínmyndir með fullt af lögum væri rétta formúlan fyrir Elvis mynd gerði „Blue Hawaii“ útslagið í þeim efnum. Báðar þessar myndir slógu í gegn í miðasölu og meðfylgjandi plötur rokseldust einnig. „Blue Hawaii“ er einstaklega vel heppnuð Elvis-formúlu mynd þar sem lögin eru gríðarlega vel heppnuð (hér syngur hann „Can‘t Help Falling in Love“ meðal annars) og umhverfið einstaklega aðlaðandi og flott.

„Flaming Star“ / „Wild in the Country“ (1960/1961)

Sagan segir að Ofurstinn Colonel Tom Parker, sem var umboðsmaður Elvis, hafi gert við hann samning þess efnis að Elvis fengi að velja eina mynd sem hann hefði áhuga á og svo eina á móti sem framleiðendur kvikmyndaveranna teldu líklegri til árangurs. „G.I. Blues“ var sú sem Elvis hafði minni áhuga á en „Flaming Star“ heillaði hann mjög mikið. Leikstjóri hennar var Don Siegel („Invasion of the Body Snatchers“ og síðar „Dirty Harry“) og var myndin átakamikil harmsaga sem gerist um aldamótin og greinir frá átökum indíána og hvítra manna á afmörkuðu landsvæði. Pacer Burton (Elvis) er sonur hvíts manns og indíánakonu og lendir í miðjum átökunum og þarf að velja á milli tveggja fjölskyldna en sáttartilraunir hans bera engan árangur og á endanum kemur til blóðugs uppgjörs.

„Flaming Star“ er dramatískur og átakanlegur vestri sem greinir frá fordómum í sinni verstu mynd og dregur ekkert undan þegar kemur að blóðugum átökum. Siegel nær fram góðum og yfirveguðum leik frá Elvis og myndin hefur góðan stíganda og er ansi áhrifamikil. Elvis syngur aðeins eitt lag snemma í myndinni en fljótlega tekur alvaran við.

Hin myndin sem Elvis valdi var „Wild in the Country“ en þar leikur hann pörupilt sem sýnir á sér leyndar hliðar þegar í ljós kemur að hann er mjög góður rithöfundur. Eins og í „Jailhouse Rock“ og „King Creole“ þá leikur hann hér einstakling sem er ekkert sérstaklega góður karakter og nýtir hann sér útlit sitt og góðmennsku kennara síns (Hope Lange) sér til framdráttar en hann lærir dýrmæta lexíu á leiðinni og eftir mikil tilfinningaleg átök stendur hann uppi reynslunni ríkari.

Þegar uppi stóð lugu tölurnar ekki. „G.I. Blues“ og „Blue Hawaii“ rökuðu inn seðlunum en ekki hinar tvær. Elvis söng svo fá lög í þeim að ekki var einu sinni hægt að gefa út plötu með og því var framhaldið kristaltært og formúlan að hinni fullkomnu Elvis mynd var komin; léttmeti með fullt af lögum.

„Girls, Girls, Girls“ (1962)

Hugmyndin að baki Elvis formúlunni var ekki alslæm. Elvis hélt aldrei tónleika utan Bandaríkjanna og því voru myndirnar góð leið fyrir restina af heimsbyggðinni að berja goð sitt augum. Þó hinn raunverulegi Elvis birtist þeim ekki á skjánum lék hann ávallt meðaljón sem hafði hógværa drauma og lét ekki deigan síga í að eltast við þá.

„Girls, Girls, Girls“ var ellefta mynd Elvis og formúlan í fullum gangi. Hér leikur hann sjómanninn Ross Carpenter sem á sér þann draum heitastan að safna nógu miklum pening til að kaupa bát föður síns. Ross er með siðferðislega áttavitann rétt stilltan og forðast óheiðarlegar leiðir til að komast yfir pening og sú þrjóska leiðir til nokkurra slagsmála við óprúttna aðila (mjög algengt í Elvis myndum). Það kemur sér vel að hann syngur eins og engill og því tekst honum að landa vinnu á næturklúbb þar sem hann verður fljótt aðalskemmtikrafturinn.

Þessar myndir voru nú engin geimvísindi en aðlaðandi umhverfi, ljúf lög (hér syngur hann „Return To Sender“), fallegar stúlkur og létt efnistök voru eiginleikar sem heilluðu almenning og „Girls, Girls, Girls“ er á allan hátt hin prýðilegasta afþreying.

„Viva Las Vegas“ (1964)

„Viva Las Vegas“ var fimmtánda mynd kóngsins og jafnframt ein sú allra vinsælasta. Það kom að því að Elvis deildi sviðsljósinu og hér fékk hin undurfagra Ann-Margaret að láta ljós sitt skína og meira að segja að syngja með honum dúett. Myndin skartar einnig alveg gríðarlega flottum dans- og söngatriðum sem eru vel útfærð og einnig frábærum kappakstursatriðum sem voru stórhættuleg fyrir áhættuleikara og líta atriðin mjög vel út enn þann dag í dag.

Spilaborgin Vegas gat varla fengið betri kynningu og myndin þénaði t.a.m. mun meiri pening en Bítlamyndin „A Hard Day‘s Night“ sem frumsýnd var sama ár og þykir ein af betri myndum fjórmenninganna. Sömu sögu var að segja um meðfylgjandi plötu en ásamt titillaginu syngur kóngurinn ballöðuna „Today, Tomorrow and Forever“ og Ray Charles smellinn „What‘d I Say“.

„Tickle Me“ (1965)

„Tickle Me“ var átjánda mynd kóngsins og er hún gott dæmi um hvernig myndirnar hans þróuðust. Í flesta staði er hún yfirmáta kjánaleg en hér leikur hann flakkara (sem syngur eins og engill) sem nælir sér í vinnu á búgarði þar sem eingöngu gullfallegar konur eru og í lokin er hann að leita að fjársjóði sem er falinn í nærliggjandi draugabæ.

„Tickle Me“ er með ákveðna sérstöðu þar sem Elvis tók ekki upp nein ný lög fyrir myndina og notast var eingöngu við áður útgefna smelli. Ástæðan er sú að kvikmyndafyrirtækið Allied Artists stóð höllum fæti og féllst Elvis á mikla launalækkun gegn 50% af gróða myndarinnar í staðinn. Til að draga enn frekar úr kostnaði voru gömul lög notuð. Velgengni „Tickle Me“ reddaði kvikmyndafyrirtækinu úr vandræðum.

Eins og segir þá er myndin ekki merkileg en Elvis hafði mjög góða nærveru og bjó yfir fínum gríntöktum og hér skemmtir hann sér greinilega vel. Myndin var sú fimmta sem hann gerði með leikstjóranum Norman Taurog og nokkur atriði hér sýna ágætlega að þeir vissu hvað myndirnar endurtóku sig aftur og aftur.

„Paradise, Hawaiian Style“ (1966)

Á þessum tímapunkti voru sölutölur aðeins að versna og „Paradise, Hawaiian Style“ var tuttugasta og fyrsta myndin sem Elvis lék í. Hér má sjá greinileg merki um takmarkaða hugmyndaauðgi og, að mati höfundar greinar, er lágpunktinum náð þegar kóngurinn syngur „A Dog‘s Life“ fyrir hóp af hundum sem hann er með í þyrlunni sinni.

Það var talið pottþétt að senda Elvis aftur til Hawaii þar sem það gekk svo vel tvívegis áður („Blue Hawaii“ og „Girls, Girls, Girls“) en myndin er einstaklega þunnur þrettándi og Elvis greinilega dauðleiðist vitleysisgangurinn sem á sér stað. Lögin eru frekar auðgleymd og þrátt fyrir fagurt umhverfi var Elvis formúlan farin að sýna mikil þreytumerki.

Það sem helst hefur haldið þessari í sögubókunum er að velski söngvarinn Tom Jones og Elvis hittust í fyrsta sinn á tökustað myndarinnar.

„Charro“ (1969)

Formúlan fór að taka smá breytingum og myndir eins og „Easy Come, Easy Go“ (1967) og „Live a Little, Love a Little“ (1968) sýndu aðeins aðra hlið á kónginum ásamt því að taka mið af (og gera pínu grín að) breyttu landslagi og viðhorfabreytingunum sem hippamenningin hafði á almenningsvitundina. En inn á milli voru léttmeti á borð við „Clambake“ og „Double Trouble“ (báðar 1967) sem sýndu enn frekar að Elvis myndirnar voru alveg lausar við metnað og þökk sé skertari fjárútlátum litu þær ekki eins vel út og áður (oftast teknar upp í myndveri og gervilegur bakgrunnur notaður til að gefa til kynna að Elvis væri staddur í öðru landi o.s.frv.) og vestra-farsinn „Stay Away Joe“ (1968) var svo losaralegur og yfirgengilegur að engu líkara var en allt væri að leysast upp í vitleysu.

Það var því viss spenna fólgin í því að sjá Elvis tækla dramatískt hlutverk í vestranum „Charro!“ og persóna hans var í raun hálfgerð andhetja sem kærði sig lítið um að hjálpa öðrum og hugsaði fyrst og fremst um sjálfan sig. Jess Wade (Presley) er flakkari sem er ranglega ákærður og fangelsaður fyrir að stela fallbyssu frá mexíkóskum byltingarsinnum. Er hann losnar úr prísundinni hefur hann upp á glæpagenginu sem stóð á bak við verknaðinn.

Mögulega var „Charro!“ dropinn sem fyllti mælinn hjá Elvis en handritinu á myndinni var breytt rétt áður en tökur hófust og persóna hans töluvert milduð og dregið úr ofbeldinu sem átti að prýða skjáinn. Þegar uppi stóð var „Charro!“ fremur látlaus vestri þrátt fyrir harðneskjulegra útlit kóngsins (eina skiptið þar sem hann fékk að vera með skegg) og þótti ósköp mikið léttmeti við hliðina á þeim vestrum sem voru að gera það gott á svipuðum tíma eins og „Once Upon a Time in the West“ (1968) og „The Wild Bunch“ (1969). „Charro!“ er þó með þá sérstöðu að kóngurinn syngur ekki eitt einasta lag í myndinni sjálfri.

„Change of Habit“ (1969)

Það kom að því en þrítugasta og fyrsta mynd kóngsins varð hans síðasta. „Change of Habit“ mun alltaf vera þekktust fyrir að vera hans síðasta mynd en í raun er margt sem gerir hana mjög frábrugðna öðrum myndum hans.

Elvis leikur lækninn John Carpenter sem ver miklum hluta tíma síns í að hjálpa krökkum í fátækrahverfi í New York (og skemmtir þeim m.a. með hörku frammistöðu á laginu „Rubberneckin‘“) og inn í söguna blandast góðhjörtuð nunna, Michelle (Mary Tyler Moore), sem dulbýr sig sem félagsráðgjafa og flytur inn í íbúð í hverfinu þar sem henni finnst hún ekki ná til ungmenna í nunnuklæðunum. Michelle og John fella hugi saman og vinna góðverk fyrir krakkana í hverfinu en fljótlega þarf Michelle að taka erfiða ákvörðun þegar hún neyðist til að velja á milli auðveldari leiðar til að hjálpa krökkum í vanda eða fylgja vegi Skapara síns eins og hún telur að sér hafi ávallt verið ætlað.

Ákvörðun hennar gæti komið mörgum á óvart og í raun er „Change of Habit“ mjög fín mynd í flesta staði og er algerlega laus við kjánaganginn sem var farinn að einkenna myndir Elvis í seinni tíð. Helsti dragbíturinn hér var Elvis sjálfur en hann virtist hafa yfirgefið svæðið löngu áður en tökur hófust og leikur hans er afskaplega flatur og tilþrifalítill. Elvis var þegar farinn að leggja grunn að endurkomu á tónleikasviðið í Las Vegas og það virtist eiga hug hans allann og það sést.

Eftir á að hyggja má líta á kvikmyndaferil Elvis sem vannýtt tækifæri. Þrátt fyrir að hafa ekki menntað sig í leiklist var greinilegt að hann hafði hæfileika í þessum efnum og synd að gróðahyggja og hræðsla við að víkja frá formúlu hafi alfarið ráðið ferðinni. Pínulítil teikn voru á lofti um breyttar áherslur og öðruvísi hlutverk en það var einfaldlega of lítið og of seint. Sagan segir að Elvis hafi á einhverjum tímapunkti viljað snúa sér aftur að kvikmyndaleik (hann hafnaði víst hlutverki í „A Star Is Born“ (1976) með Barbru Streisand) en það gerðist ekki. Þó má með sanni segja að fagmaðurinn Elvis Presley lagði allt í sölurnar til að byrja með og seinna meir gerði hann það sem þurfti til að klára verkið og eftir hann liggja fjölmargar myndir sem falla í gæðaflokkana; frábærar, ágætar, frekar slappar og lélegar. Þetta er nokkurn veginn svipað gæðahlutfall og hjá flestum leikurum.